Með allt í ólagi

Lögreglan hefur reglulega afskipti af ökumönnum sem eru undir áhrifum …
Lögreglan hefur reglulega afskipti af ökumönnum sem eru undir áhrifum áfengis eða vímuefna. mbl.is/RAX

Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði nýverið var vægast sagt með allt sem hugsast gat í ólagi. Bifreiðin var ótryggð og óskoðuð frá því árið 2015. Þá ók hann sviptur ökuréttindum, að því er lögreglan segir í tilkynningu.

Loks vaknaði grunur um að hann æki undir áhrifum fíkniefna og var hann því handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem skýrsla var tekin af honum og sýnatökur fóru fram.

Tveir ökumenn til viðbótar voru einnig grunaðir um fíkniefnaakstur.

Þá segist lögreglan hafa kært nítján ökumenn fyrir of hraðan akstur á undanförnum dögum. Sá sem hraðast ók mældist á 124 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Annar ökumaður sem mældist á 122 km hraða, þar sem hámarkshraði er einnig 90 km á klukkustund, var ekki orðinn 18 ára og því var barnaverndaryfirvöldum tilkynnt um málið.

Þá urðu nokkrir ökumenn uppvísir að því að virða ekki stöðvunarskyldu eða aka án ökuréttinda. Einn þeirra sem ók sviptur ökuréttindum var með barn sitt í bílnum. Loks voru skráningarnúmer fjarlægð af bifreiðum sem voru óskoðaðar eða ótryggðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert