Stella tekur við UN Women á Íslandi

Stella Samúelsdóttir.
Stella Samúelsdóttir.

Stella Samúelsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastýra landsnefndar UN Women á Íslandi en hún tekur við starfinu af Ingu Dóru Pétursdóttur. Stella er mannfræðingur með menntun á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu, alþjóðasamskiptum og hagfræði, að því er segir í tilkynningu frá UN Women.

Stella „hefur víðtæka starfsreynslu bæði á sviðum þróunarsamvinnu, reksturs og viðskipta. Hún starfaði í fimm ár á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Malaví þar sem hún meðal annars stjórnaði verkefnum er lutu að jafnréttismálum og valdeflingu kvenna, starfaði sem sérfræðingur hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York þar sem hún hafði umsjón með þróunarverkefnum, stofnunum og sjóðum Sameinuðu þjóðanna, jafnréttismálum og umhverfismálum.

Þess má geta að hún tók þátt í hinum ýmsu samningaviðræðum fyrir hönd Íslands í allsherjarþingi Sþ, þ.á.m. þátttakandi í samningaviðræðum um stofnun UN Women. Hún hefur einnig starfað sem sjálfstæður ráðgjafi í þróunarmálum. Síðastliðin þrjú ár hefur hún rekið eigið fyrirtæki í Bandaríkjunum sem flytur út Saltverk sjávarsalt frá Íslandi til Bandaríkjanna og er saltið nú til sölu í Whole Foods Market, á Amazon, hjá smærri sérverslunum og á veitingastöðum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert