„Afsakið, geturðu hjálpað mér?“

mbl.is

„Afsakið, afsakið, geturðu hjálpað mér?“ sagði maðurinn sem beraði sig fyrir framan unga konu í sameigninni á stúdentagörðunum í Lindargötu og bað hana um að fróa sér. Íbúum hefur reynst erfitt að koma í veg fyrir að maðurinn dvelji í sameigninni í óleyfi. 

Greint hefur verið frá því á mbl.is að maðurinn hafi valdið íbú­um fjöl­býl­is­ins ónæði í nokkr­ar vik­ur. Meðal annars hafi hann framið inn­brot í eina íbúð á stúd­enta­görðunum.

„Þetta er maður sem á bágt. Hann er að hanga í sameigninni, yfirleitt liggjandi eða sitjandi í horninu,“ segir einn íbúanna. „Hann er yfirleitt til friðs, sumum finnst það óþægilegt en sumir láta þetta ekki angra sig. Þetta var hins vegar yfir strikið.“ 

Kölluð var til lögregla í gær vegna atviksins og var manninum fylgt í gistiskýlið sem er við hlið fjölbýlisins. Lögregla þurfti aftur að hafa afskipti af manninum í dag þegar hann sást á nýjan leik í sameign hússins. 

Hann á það til að dingla bjöllum. Ég hef oft vaknað á nóttunni um helgar við að dinglað sé bjöllunni.

Að sögn íbúans hefur Félagsstofnun stúdenta átt erfitt með að takast á við vandamálið vegna þess að maðurinn kemur alltaf aftur. Vandinn sé hins vegar ekki bundinn við þennan eina mann. 

„Við höfum orðið vör við að fólk sem er að hanga hjá bílastæðinu og drekka þegar gistiskýlið er lokað. Síðasta mánuðinn hafa þeir byrjað að koma inn og sérstaklega þessi maður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert