Trommukennsla á parabólur

Starfsmenn Kópavogsbæjar létu snjókomu ekki á sig fá um daginn …
Starfsmenn Kópavogsbæjar létu snjókomu ekki á sig fá um daginn þegar þeir komu fyrir parabólum sem Sigtryggur Baldursson hefur lánað Menningarhúsunum í Kópavogi. Ljósmynd/Arna Schram

Starfsmenn Kópavogsbæjar létu snjókomu ekki á sig fá um daginn þegar þeir komu fyrir parabólum sem Sigtryggur Baldursson hefur lánað Menningarhúsunum í Kópavogi. Í dag, á lokadegi Barnamenningarhátíðar í Kópavogi, verður Trommu-Dísa á staðnum til að kenna gestum að spila á parabólurnar tvær.

Að sögn Ólafar Breiðfjörð, verkefnisstjóra Barnamenningar í Kópavogi, verða parabólurnar áfram á útivistarsvæði Menningarhúsanna gestum til yndisauka. „Með því að fá trommukennara til að kenna undirstöðuatriðin vonum við að fullt af krökkum muni nota trommurnar að staðaldri og þá munar einmitt miklu að kunna að berja á þær til að geta fengið sem mest út úr spilamennskunni,“ er haft eftir Ólöfu í fréttatilkynningu.

Kennslan hefst kl. 15 í dag og stendur til kl. 16.30.

Af öðrum áhugaverðum atriðum á dagskrá Barnamenningarhátíðar í Kópavogi í dag má nefna Möggu Stínu og krakka úr Smáraskóla sem spila á tónleikum í Salnum ásamt Þjóðlagahópnum Þulu og Ásgeiri Ásgeirssyni, fráfarandi bæjarlistamanni Kópavogs, kl. 14. Á tónleikunum fá gestir að heyra mjög ólíkar aðferðir við að flytja þjóðlög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert