„Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar“

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Golli

Neikvæðni eykst, ímynd og orðspor versnar. Þetta er leiðin sem stjórnvöld vilja fara,“ sagði Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í Silfrinu í Ríkisútvarpinu í dag. Hún og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra tókust þar á um áformaðar breyt­ing­ar á virðis­auka­skatti á ferðaþjón­ustu.

Sam­tök ferðaþjón­ust­unn­ar gera ský­lausa kröfu um að áformaðar breyt­ing­ar verði að fullu dregn­ar til baka. Helga ít­rekaði að álög­urn­ar væru langt yfir meðaltali sam­an­b­urðarþjóða sem er um 11%. Á Íslandi verður virðis­auka­skatt­ur­inn 24% frá 1. júlí 2018 til 1. janú­ar 2019 en lækk­ar þá í 22,5% þegar neðra þrepið lækk­ar al­mennt. 

Helga benti á að sam­hliða breyt­ing­un­um hefði ekk­ert verið kynnt um aukið fé til upp­bygg­ing­ar. „Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar,“ sagði hún.

Gert til að dempa vöxt greinarinnar

Benedikt benti á að greinin hefði ekki verið sérstaklega stór fyrir nokkrum árum en hefði vaxið gríðarlega eftir eldgosin í Eyjafjallajökli og Holuhrauni. „Við skulum ekki gleyma því að þessi mikla aukning og hraði vöxtur hefur haft mikil áhrif á hagkerfið,“ sagði Benedikt og bætti við að áform stjórnvalda væru meðvituð efnahagsaðgerð til að dempa vöxtinn.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Helga sagði rök fjármálaráðherra ekki halda vatni og skattahækkanir séu ekki stýritæki til að dempa vöxt greinarinnar. „Við teljum miklu betri stjórntæki til þess, ef það er horft út frá vaxtaþætti. Þegar fjármálaáætlun var kynnt átti þetta ekki að vera vegna fjölda ferðamanna og því hefur orðið 180 gráðu snúningur hjá stjórnvöldum,“ sagði Helga en áður hafði hún kvartað yfir því að ekkert samráð hefði verið haft við samtökin vegna fyrirhugaðra hækkana.

Engin stefna og engin sýn

Benedikt sagðist hafa fengið pósta frá fólki innan ferðaþjónustunnar sem skildi áætlanir stjórnvalda. Verið væri að draga almennt úr ívilnunum og verið væri að setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum.

„Þetta veikir minni byggðarlög og landsbyggðina. Það er engin stefna og engin sýn varðandi mikilvægustu atvinnugrein landsins,“ sagði Helga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert