Var orðinn kaldur og þrekaður

mbl.is/Sigurður Bogi

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar björguðu hvor sínum kajakræðara úr Þjórsárósum í gærkvöldi en annar þeirra var orðinn þrekaður og kaldur samkvæmt upplýsingum frá Gæslunni. Þegar þyrlurnar komu á vettvang voru björgunarsveitarmenn og lögregla komin á staðinn. Lenti TF-LIF í fjörunni og voru lögreglumaður og ættingi annars mannanna teknir um borð en sá síðarnefndi var í símasambandi við annan kajakræðarann sem auðveldaði leitina.

Frétt mbl.is: Tvær þyrlur skiptu sköpum

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður, slæmt veður og talsverða ölduhæð, fundust kajakræðararnir fljótlega í sjónum. TF-LIF hífði annan þeirra um borð og var hann orðinn kaldur og þrekaður. Um það leyti kom TF-GNA, sem hafði lagt aðeins síðar af stað frá Reykjavík, og var ákveðið að hún sæi um að bjarga hinum úr sjónum. TF-LIF varpaði blysum í sjóinn til að merkja staðinn um leið og hlúð var að manninum um borð. TF-GNA bjargaði svo hinum manninum.

Frétt mbl.is: Kajakræðararnir heilir á húfi

Sigmaður TF-GNA bjargaði hinum manninum úr sjónum örfáum mínútum síðar. Þyrlurnar lentu á Selfossi á leiðinni til Reykjavíkur svo læknir gæti farið úr TF-LIF yfir í TF-GNA til að sinna manninum sem þar var. Þyrlurnar lentu síðan við Landspítalann í Fossvogi í Reykjavík.

Gæslan tekur undir með lögreglumönnum á slysstað að miklu hafi skipt að tvær þyrlur skyldu vera til taks. Erfitt hefði verið að sinna bæði leit og bjarga tveimur mönnum við þær aðstæður sem fyrir hendi voru með aðeins einni þyrlu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert