Vísbending um viðbrögð við sterkara gengi

Ferðamenn á Íslandi hafa stytt dvöl sína hér á landi.
Ferðamenn á Íslandi hafa stytt dvöl sína hér á landi. mbl.is/Styrmir Kári

Í mars fjölgaði ferðamönnum sem komu til landsins um 44% samkvæmt tölum Ferðamálastofu, en á sama tíma fjölgaði heildargistinóttum á hótelum ekki nema um 17% samkvæmt tölum Hagstofunnar. Sérfræðingur segir þetta styðja þær tölur sem áður hafi komið fram sem sýni að ferðamenn gisti hér skemur en áður og að fleiri en áður sæki í að nýta sér Airbnb-gistingu eða aðra ódýrari gistingu sem sé ekki endilega skráð.

Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningadeildar Íslandsbanka, segir í samtali við mbl.is að greiningadeildin hafi áður bent á þessa þróun í skýrslu um ferðaþjónustuna sem kom út í mars á þessu ári. Hann segir tölurnar núna gefa ákveðna vísbendingu um viðbrögð ferðamanna við sterkara gengi íslensku krónunnar, en áður hafði komið fram að meðaltal gistinátta ferðamanna hafi farið úr um 4,3 til 4,4 niður í 3,8 nætur í fyrra. Segir hann þetta talsverða breytingu og tölurnar núna staðfesti þetta.

Þá segir hann einnig líklegt að ferðamenn séu í auknum mæli að horfa til annarra kosta en hótelgistingar, meðal annars Airbnb og gistiheimila sem tölur Hagstofunnar nái ekki til.

Kristofer Oliversson, eigandi Center Hotels, segir í samtali við mbl.is að bæði mars í ár og í fyrra hafi verið næstum fullbókaðir hjá hótelum á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að hótelin taki varla við fleiri ferðamönnum og því flytjist umframeftirspurnin yfir í „skuggahagkerfið og íbúðargistingu“.

Segir hann að ef ríkisvaldið vilji reyna að koma á einhverri fjöldastýringu ferðamanna væri mun nær að takast á við vandamálið með því að passa upp á að öll gististarfsemi væri löglega skráð og greiddi tilheyrandi skatta af því í stað þess að hækka virðisaukaskatt á greinina. Segir hann að með því mætti í fyrsta lagi auka tekjur ríkissjóðs og þá myndu væntanlega einhverjir sem leigi út eigin íbúðir ekki sjá hag í því lengur og þar með myndi framboðið dragast saman og þannig tempra ferðamannastrauminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert