Almenningur nái sínum eignum til baka

Gunnar Smári Egilsson á stofnfundi Sósíalistaflokks Íslands.
Gunnar Smári Egilsson á stofnfundi Sósíalistaflokks Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Sósíalistaflokkurinn verður líklega praktískur flokkur. Þetta er mat Gunnars Smára Egilssonar, sem í dag stóð að stofnfundi Sósíalistaflokks Íslands. Hann var sáttur við þann fjölda sem sótti stofnfund flokksins sem haldinn var í Tjarnarbíói í dag og kvaðst ekki hafa séð annað en að fólk héldi á brott blásið innblásið af baráttuvilja.

„Ég býst við að Sósíalistaflokkurinn verði praktískur flokkur,“ sagði Gunnar Smári í samtali við blaðamann Morgunblaðsins. „Staðan í dag er sú að við höfum fallið ofan í vök sem við getum kallað vök nýfrjálshyggjunnar þar sem margt af þeim grunnkerfum sem áður virkuðu að einhverju leyti fyrir verkafólk og launafólk hefur brostið.“

Ekki tilviljun að velferðarkerfið er veikara en áður

Sú tilfinning fari vaxandi hjá landsmönnum að velferðarkerfið sé mun veikara núna en áður. „Það er ekki tilviljun. Það gerðist að fyrst voru lækkaðir skattar á fyrirtæki og fjármagn og það leiddi til þess að það þurfti að skera niður velferðarkerfið,“ sagði Gunnar Smári. Þetta sé nú byrjað að bitna harðast á þeim sem veikast standa.

„Þannig að fyrsta skrefið er að bakka aftur upp úr þessari vök og finna aftur ísinn sem hélt okkur. Það er ekki langt síðan að hér voru eðlilegri skattar á fyrirtæki og fjármagn og heilbrigðisþjónusta ókeypis, vísir að ágætis félagslegu húsnæðiskerfi en allt þetta var eyðilagt.“

Fyrsta skrefið sé að færa sig tilbaka og finna einhvern grunn til að byggja á.

Spurður um það hvernig hann ætli að ganga á eignir án þess að breyta lögum svaraði Gunnar Smári að fyrsta skrefið sé að almenningur nái sínum eignum. „Almenningur á kvóta í kringum landið sem meta má á þúsund milljarða sem stjórnvöld leigja út á 4 milljarða,“ sagði hann.

Snýst um eignarrétt á almannaeignum 

„Almenningur á í eftirlaunasjóðum launþega um 3.500 milljarða sem stjórnendur fyrirtækja fá að leika sér með til þess að ýta undir veikar fjárfestingar vina sinna og halda fyrirtækjum sem reka stefnu sem vinnur gegn hagsmunum almennings, þannig að þetta snýst ekkert um eignarrétt fólks á einhverju húsi, þetta snýst um eignarrétt á almannaeigum sem hinir ríku og auðugu hafa sölsað undir sig.“

Gunnar Smári sagði bráðabirgðastjórn fyrir flokkinn hafa verið valda á fundinum sem muni leiða uppbyggingu hans næstu mánuði.

„Hún hefur takmarkað umboð til að móta stefnu en henni er falið að byggja upp starf innan flokksins.“

Stofnfélagar Sósíalistafélags Íslands.
Stofnfélagar Sósíalistafélags Íslands. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert