Almenningur berst vopnlaus gegn leigurisum

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í ávarpi sínu flesta …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í ávarpi sínu flesta vera nær fátækt en þeir gerðu sér grein fyrir. mbl.is/Árni Sæberg

Það er skiljanlegt að viðsemjendur launafólks haldi á lofti blekkingum að kaupmáttur launafólks sé fordæmalaus. En þegar talsmenn launafólks eru farnir að halda úti slíkum málflutningi þá þarf að staldra við. Þetta kom fram í 1. maí ávarpi Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR.

Sagði Ragnar Þór að enn ein góðærisaldan virðist nú ríða yfir landið. „Möntrur eins og að við höfum aldrei haft það eins gott, aldrei verið settir meiri peningar í grunnþjónustuna, kaupmáttur launa sé fordæmalaus eru viðhafðar af ráðamönnum við hvert tækifæri,“ sagði í ræðu hans sem mbl.is fékk senda fyrir kröfufundinn á Austurvelli sem haldin er af þeim sem eru ósáttir við núverandi verkalýðsforystu.

Sagði Ragnar Þór ekki vera stærðfræðilega flókið að reikna sig niður á afar mismunandi stöðu fólks „þegar kemur að meintum kaupmætti og komast að þeirri niðurstöðu að á bakvið þessar tölur liggja allt aðrar og nöturlegri staðreyndir um hverjir raunverulega taka þetta til sín.“

Færumst nær bandaríska kerfinu

Sama megi segja um heilbrigðiskerfið. „Forsætisráðherra sagðist alls ekki skilja í viðtali á Bylgjunni af hverju það væri ekki í lagi að reka einkarekna heilbrigðisþjónustu og af hverju í ósköpunum almenningur væri svona mótfallin þessari þróun. Aldrei hafi jafnmiklum fjármunum verið varið í kerfið. Arðgreiðslur einkareknu heilsugæslustöðvanna undanfarin ár, sem hleypur á hundruðum milljóna, fer svo sannarlega ekki í að bæta þjónustu við sjúklinga. Við erum að færast á ógnvænlegum hraða nær því kerfi sem rekið er í Bandaríkjunum sem er eitt dýrasta og ósanngjarnasta heilbrigðiskerfi í heimi. Tryggingarfélög eru orðin milliliður fólksins og kerfisins þar sem krafa um meiri hagnað á öllum stigum skilar sér í vasa auðvaldsins á kostnað þeirra sem veikir eru.  Viljum við fara á þann stað?,“ sagði Ragnar Þór.

Fólk lét ekki rigninguna stoppa sig að taka þátt í …
Fólk lét ekki rigninguna stoppa sig að taka þátt í kröfugöngu á 1. maí. mbl.is/Árni Sæberg

Þá standi endurreisn fjármálakerfisins á nánast sömu brauðfótum og það sé líklega einn stærsti blekkingarvefurinn. „Sömu gerendur og leikendur eru að komast í sömu lykilstöðurnar. Arðgreiðslur ofurlaun og bónusar hækka jafnt og þétt í takt við bullandi hagnað á hverjum ársfjórðungi. Rétt eins og ekkert hafi í skorist. Hugmyndir um aðskilnað viðskipta og fjárfestingabanka starfsemi eða banka sem reknir eru á samfélagslegum grunni eru skotnar niður eins og eitthvað brjálæði sem hlegið er af. Þrátt fyrir þá staðreynd að slík kerfi séu þau einu sem gengið hafa stóráfallalaust í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Þetta eru bankar sem eru til fyrir viðskiptavini sína en ekki öfugt þar sem sveigjanleiki og uppbygging er sett framar niðurrifi og græðgi.“

Tilgangslaust að byggja íbúðir sem enginn hefur efni á

Húsnæðismarkaðurinn sé enfremur vígvöllur þar sem almenningur berjist „vopnlaus gegn leigurisum og okurlánastarfsemi fjármálakerfisins. Braskarar og stóreignafélög græða á tá og fingri á meðan sveitarfélög og stjórnvöld klóra sér í hausnum,“ sagði Ragnar Þór. Hætta sé á að lóðaúthlutunin sem sveitarfélög undirbúi nú endi með víðlíka braski og fyrir hrun, því ekki sé til neins að byggja þúsundir íbúa sem engin hafi efni á að kaupa „nema setja sig í ævarandi skulda og vaxta fangelsi.

„Miklu nær væri að taka höndum saman og skipuleggja heilbrigðan og dreifðan húsnæðismarkað með aðkomu stjórnvalda, sveitarfélaga, lífeyrissjóða og verkalýðshreyfingarinnar,“ sagði í ræðu Ragnars Þórs sem vildi helst læsa þessa aðila inni þar til viðunnandi lausn finnist.

Ragnar Þór gerði almannatryggingakerfið einnig að umtalsefni og sagði flesta vera nær fátækt en þeir gerðu sér grein fyrir. „Er ásættanlegt að þurfa fjársöfnun vina og vandamanna til að takast á við áföll? Samspil lífeyrissjóða við almannatryggingakerfið hefur búið svo um hnútana.“

Lífeyrissjóðakerfið sé á góðri leið með að éta börnin sín „sem stærsti eigandi húsnæðislána og smásöluverslunar og eru orðnir sannkallaðir leigurisar í gegnum beina og óbeina eign í stærstu leigufélögunum. Sjóðirnir hafa því hag af háum vöxtum, hárri leigu, hárri álagningu og lágum vöxtum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert