Sigur í enn einu dómsmálinu

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi hefur um árabil verið vinsæll viðkomustaður ferðamanna. …
Jökulsárlón á Breiðamerkursandi hefur um árabil verið vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Síðan 2010 hafa staðið yfir deilur um ferðaþjónustu á svæðinu, en deilur milli landeiganda hófust enn fyrr. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Austurlands hefur fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar um að synja ferðaþjónustufyrirtækinu Ice Lagoon um stöðuleyfi undir húskerru á jörðinni Felli við Jökulsárlón. Um er að ræða mikinn sigur fyrir fyrirtækið sem hefur barist fyrir aðstöðu við Jökulsárlón í hartnær áratug.

Stærsti einstaki landeigandinn áður en ríkið keypti jörðina Fell, Einar Björn Einarsson, sem rekur Jökulsárlón ferðaþjónustu og gerir m.a. út hjólbátana á svæðinu, hefur frá upphafi verið mótfallinn því að Ice Lagoon geti gert út frá Felli á grundvelli leigusamnings sem hann gerði við aðra landeigendur Fells árið 2000.

Fyrstu ár starfsemi Ice Lagoons var gert út frá vesturbakka Jökulsárlóns, sem er Þjóðlenda, eða þar til sveitarfélagið Hornafjörður bannaði fyrirtækinu að gera þaðan út. Málið er hið flóknasta, en dómsmálin fléttast ofan á hvert annað.

Meirihlutaeigendur jarðarinnar voru því samþykkir árið 2010 að Ice Lagoon fengi aðstöðu undir húskerru á jörðinni til að gera út bátaferðir á Jökulsárlóni. Töldu þeir jákvætt að auka fjölbreytni í ferðaþjónustu á svæðinu. En eftir andmæli Einars Björns hóf Ice Lagoon að gera út sumarið á eftir, frá vesturbakka Jökulsárlóns árið 2011, í þjóðlendu.

Ferðamenn á Jökulsárlóni. Einar Björn hefur rekið ferðaþjónustuna síðan um …
Ferðamenn á Jökulsárlóni. Einar Björn hefur rekið ferðaþjónustuna síðan um aldamót. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fékk ekki áframhaldandi stöðuleyfi á þjóðlendunni

„Þetta er búið að vera sjö ára barátta og nú eru dómstólar búnir að staðfesta það sem ég haldið fram alla tíð. Að reksturinn sé búinn að vera löglegur frá fyrsta degi“ segir Ingvar Þórir Geirsson í samtali við mbl.is. „Ég fagna þessari niðurstöðu og nú tekur bara við að byggja upp fyrirtækið á eðlilegum forsendum.“

Sumurin 2011, 2012 og 2013 starfaði Ice Lagoon á þjóðlendunni, á vesturbakka lónsins, en sveitarfélagið Hornafjörður synjaði umsókn fyrirtækisins um að nýta land í þjóðlendunni 2013 og hótaði sveitarfélagið dagsektum ef Ice Lagoon færi ekki af þjóðlendunni. Var miðað við 1. september og hætti fyrirtækið að sigla þá, og varð við kröfu sveitarfélagsins.

Ice Lagoon óskaði eftir stöðuleyfi á austurbakka lónsins fyrir sumarið 2014, þ.e. á jörðinni Felli. Umhverfis- og skipulagsnefnd Hornafjarðar var jákvæð fyrir erindinu að því er fram kom í bréfi til Ice Lagoon, en bent var á að samþykki landeigenda þyrfti að liggja fyrir. Við það virðist umsóknarferlið hafa stöðvast og lauk því án formlegrar ákvörðunar.

Óskaði Ice Lagoon þá aftur um leyfi til að nýta land innan þjóðlendunnar á Vesturbakka lónsins en umsókninni var synjað í bæjarstjórn Hornafjarðar. Fór Ice Lagoon þá með starfsemina inn á jörðina Fell og hóf þar rekstur í júní 2014.

Núverandi þjónustuhús stendur á jörðinni Felli, og er komið til …
Núverandi þjónustuhús stendur á jörðinni Felli, og er komið til ára sinna. Landeigendur hafa ekki getað komið sér saman um framtíðarskipulag á svæðinu. Ríkið eignaðist jörðina fyrr á árinu. Helgi Bjarnason

Sýslumaður hafnaði lögbannskröfu á Ice Lagoon

Í upphafi ársins 2014 hafði Einar Björn stefnt Ice Lagoon og sameigendafélagi Fells. Var þess þar krafist að Ice Lagoon yrði bannað að gera út báta með ferðamenn á Jökulsárlóni á landi jarðarinnar Fells á grundvelli samnings Einars við Sameigendafélagið frá apríl 2012. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði ekki í málinu fyrr en í lok apríl 2015.

Sama dag og sýslumaðurinn hafnaði kröfunni var kveðinn upp dómur í enn öðru dómsmáli milli landeigenda Fells, þar sem sameigendafélagið vildi að leigusamningi við Einar Björn frá árinu 2000 yrði rift. Þar var kröfu landeigendafélagsins hafnað.

Þann 13. júní fer Einar Björn fram á það við sýslumanninn á Höfn að lagt yrði lögbann við starfsemi Ice Lagoon á jörðinni felli og að hann yrði krafinn um að fjarlægja öll tæki af jörðinni. Sýslumaður hafnaði kröfunni en tók undir kröfu Einars Björns um að „almennt þurfi að hafa samþykki allra sameigenda jarðarinnar Fells, til að geta stundað atvinnustarfsemi á jörðinni“. Fór krafan fyrir héraðsdóm, en var ekki dómtekin fyrr en í september sama ár vegna sumarleyfa. Úrskurður var kveðinn 22. október 2014 þar sem kröfu um lögbann var synjað.

Hótað 250 þúsund króna dagsektum

Hornafjörður skarst í leikinn í júlí, eftir að sýslumaðurinn hafði synjað lögbannskröfunni og áður en málið var tekið fyrir í héraðsdómi. Skoraði sveitarfélagið á Ice Lagoon að hætta starfseminni samstundis.

Sagði Björn Ingi Jónsson, sveitarstjóri Hornafjarðar, í samtali við Morgunblaðið 28. júlí 2014 að lögfræðingur sveitarfélagsins hefði gefið þær leiðbeiningar að senda yrði Ice Lagoon bréf og krefjast þess að allur búnaður fyrirtækisins yrði fjarlægður.

Þá lagði bæjarráð Hornafjarðar dag­sekt­ir á Ice Lagoon frá 1. sept­em­ber sama ár. Námu þær 250 þúsund krónum á hvern dag sem liði án þess að lausamunir fyrirtækisins yrðu fjarlægðir af svæðinu. Fyrirtækið átti bókað í siglingar fram að miðjum september og segir Ingvar Þórir að hann hafi þurft að keyra með búnað fyrirtækisins að morgni og fjarlægja hann að kvöldi til þess að hafa getað staðið við loforð og siglt með fólk sem átti bókað. Ferðir voru hins vegar teknir úr sölu og hætti fyrirtækið að sigla um miðjan september.

Í úrskurði Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindanefnd úrskurðaði árið 2014 segir að sveitarfélagið hafi farið út fyrir valdsvið sitt með að krefja fyrirtækið um að hætta rekstri. Það hafi ekki slíkar heimildir líkt og þar til bærar stofnanir að fjalla um leyfi sem veitt hafa verið af Ferðamálastofu og Samgöngustofu.

Ingvar segir að framganga sveitarfélagsins í málinu sé dapurleg og sé áfellisdómur yfir störfum þess. Hann bendir á að það sé til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu vegna samkeppnishamlandi aðgerða, og að fyrirtækin tvö við Jökulsárlón hafi fengið mjög ólíka meðferð hjá sveitarfélaginu. Ice Lagoon flutti til landsins dráttarbíl- og vagn og breytti, til þess að hafa færanlega aðstöðu sumarið 2016 vegna ástandsins á Lóninu.

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.
Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.

Sumarið 2015 segist Ingvar hafa fengið að vera í friði vegna dómsmáls sem var hjá Héraðsdómi Austurlands, og gat hann siglt að mestu óáreittur það ár frá austurbakkanum.

Í október sama ár var Ice Lagoon bannað að gera út báta með ferðamenn frá Felli með dómi Héraðsóms Reykjavíkur, sem má rekja til stefnunnar í ársbyrjun 2014 og kemur til vegna deilna landeigenda um samninginn, en þeim dómi var snúið við í Hæstarétti í nóvember 2016. Einn dómarinn skilaði þó sératkvæði og sagðist ósammála forsendum og niðurstöðu meirihluta dómenda.

Þann 27. apríl sl. féllst Héraðsdómur Austurlands á kröfu Ice Lagoon um að ógilda synjun Hornafjarðar á umsókn fyrirtækisins um stöðuleyfi á jörðinni Felli, en henni var hafnað árið 2015. Segir dómurinn að ákvörðun byggingarfulltrúa um synjun leyfisins haldin verulegan efnisannmarka og veigamiklar ástæður þyki ekki mæla gegn niðurstöðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert