Jafngildir útblæstri bíla ÁTVR í 12 ár

Ingvar Már Helgason matreiðslumaður og Jón Þorgeir Þorgeirsson við uppskeruna …
Ingvar Már Helgason matreiðslumaður og Jón Þorgeir Þorgeirsson við uppskeruna í matjurtagarðinum. Ljósmynd/Jóna Grétarsdóttir

Endurvinnsluhlutfall ÁTVR er 92%, 52% starfsmanna fyrirtækisins koma „grænir“ til vinnu yfir sumartímann og starfsmenn hafa meira að segja komið upp matjurtagarði við höfuðstöðvarnar á Stuðlahálsi og eru farnir að ræða flokkunarmál í fríum sínum erlendis.

„Við eigum bara eina jörð og þurfum að ganga vel um hana,“ segir Sigurpáll Ingibergsson, gæðastjóri ÁTVR. „Við erum að vinna á fullu í umhverfismálum, erum með umhverfisstefnu sem við vinnum eftir og setjum okkur markmið í þessum málum sem við fylgjumst reglulega með hvernig okkur gangi að uppfylla.“

Sigurpáll Ingibergsson, gæðastjóri ÁTVR, með viðurkenningu ÁTVR. 52% starfsmanna koma …
Sigurpáll Ingibergsson, gæðastjóri ÁTVR, með viðurkenningu ÁTVR. 52% starfsmanna koma grænir til vinnu yfir sumartímann. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Fá fyrirtæki á Íslandi ná í dag sama endurvinnsluhlutfalli og ÁTVR, enda væntanlega flestir sammála um að 92% sé glæsilegur árangur. ÁTVR er eitt þeirra 104 fyr­ir­tækja og stofn­ana sem und­ir­rituðu lofts­lags­yf­ir­lýs­ingu, í sam­starfi við Festu, miðstöð um sam­fé­lags­ábyrgð, sem Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri af­henti full­trúa lofts­lags­nefnd­ar Sam­einuðu þjóðanna  í des­em­ber 2015. Samkvæmt þeirri yfirlýsingu ætlar ÁTVR sér að ná 98% endurvinnsluhlutfalli fyrir árið 2030.

52% nýta sér samgöngustyrk yfir sumarið

Líkt og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum eiga starfsmenn ÁTVR kost á samgöngustyrk ef þeir sleppa því að fara til og frá vinnu á einkabílnum meirihluta vinnuvikunnar. „52% starfsmanna okkar nýta sér samgöngustyrkinn yfir sumartímann. Við höfum reiknað út að þegar við byrjuðum á þessu fyrir fjórum árum losaði sótspor okkar vegna samgangna 140 tonn, en nú erum við komin niður í 93 tonn,“ segir Sigurpáll.

Starfsmenn, m.a. stjórnendur, eru margir duglegir að hjóla í vinnuna og þá segir Sigurpáll starfsmenn Vínbúðanna á landsbyggðinni iðna við að ganga í vinnuna.

Það voru bústnar rófur sem komu upp úr garðinum síðasta …
Það voru bústnar rófur sem komu upp úr garðinum síðasta sumar. Ljósmynd/Jóna Garðarsdóttir

Endurvinnsla pappa skilar 6 milljóna hagnaði

Hjá ÁTVR hafa menn líka legið yfir tölunum og kynnt sér kostnaðinn við urðun.  „Við höfum komist að því að þetta eru 300 tonn sem til falla hjá okkur af pappír á ári og ef einungis  bylgjupappírshlutinn af því væri urðaður myndi það kosta okkur um fjórar milljónir í urðunargjald,“ segir Sigurpáll. „Þess í stað seljum við pappírinn og  fáum fyrir vikið um 1,5 milljón kr. í tekjur, þannig að fjárhagslegur mismunur í bókhaldinu er tæpar sex milljónir.“

Ávinningurinn af endurvinnslunni er þó ekki eingöngu fjárhagslegur. „Ef við urðum úrganginn grotnar hann niður og stígur upp sem metan og fleiri gastegundir. Það myndi þýða að um 1.500 tonn af gastegundum leystust út í andrúmsloftið árlega sem jafngildir útblæstrinum frá akstri allra bíla ÁTVR í 12 ár.“

Sigurpáll segir slíkar tölur sýna svart á hvítu hversu mikilvægt það sé að flokka rusl. „Þetta er ein öflugasta forvörnin. Þess vegna finnst mér persónulega sorglegt að heyra að endurvinnsluhlutfall hjá íslenskum fyrirtækjum er undir 50%,“ segir Sigurpáll.

Allur bylgjupappi er pressaður og settur á bretti áður en …
Allur bylgjupappi er pressaður og settur á bretti áður en hann er seldur til endurvinnslu. Ljósmynd/ÁTVR

Rækta eigið grænmeti

Við höfuðstöðvar ÁTVR á Stuðlahálsi leynist matjurtagarður, sem var notaður til að rækta grænmeti fyrir mötuneyti fyrirtækisins síðasta sumar. „Sú hugmynd kom frá starfsfólki fyrir nokkru og var innleidd í fyrra,“ segir Sigurpáll. 

Tilraunir voru gerðar með nokkrar tegundir af kartöflum í matjurtagarðinum síðasta sumar, auk annars grænmetis og til stendur að halda ræktuninni áfram í sumar. „Þetta er kannski ekki efnahagslega mikilvægt, en sótsporið er mjög lágt og með þessu erum við líka laus við allt skordýraeitur og annað slíkt,“ segir Sigurpáll.

Hann bætir við að matjurtagarðurinn geti líka hvatt starfsmenn til að hefja sína eigin grænmetisræktun, enda hefur það sýnt sig að umhverfisvitund fyrirtækja smitast út til starfsmanna þeirra.

Skammaði hótelstjórann

Þetta á m.a. við um starfsfólk ÁTVR í flokkunarmálum. „Við flokkum vel og svo kemur fólk heim og þá vantar alla innviði á höfuðborgarsvæðinu fyrir lífrænt sorp og því lendir margt í sömu körfunni,“ segir Sigurpáll og bendir á að þetta sé nokkuð sem stjórnendur í borginni megi laga. „Plastið fellur einnig á milli hjá borginni á meðan Kópavogur er kominn með lausn þar á.“ Hann segir starfsfólki því stundum líða illa þegar það kemur heim og byrjar að flokka þar.

ÁTVR hefur innleitt græn skref í ríkisrekstri sem m.a. felur í sér að horft er í pappírs- og rafmagnsnotkun og innkaupastefnu. Sigurpáll segir það hafa gengið fljótt fyrir sig þar sem lengi var búið að vinna að umhverfismálum innan ÁTVR. „Síðan innleiddum við þetta líka inn í allar Vínbúðirnar 50 og það felst ákveðin menntun í því.“

Sú menntun hefur líka skilað sér til starfsfólksins, sem fer að sinna umhverfismálum betur heima fyrir. „Ég man t.a.m. eftir einum verslunarstjóra sem fór í sumarfrí til Spánar eftir að vera búin að taka þátt í grænu skrefunum. Þar leist henni nú ekki betur en svo á það hvernig menn stóðu sig við endurvinnslu á hótelinu þar sem hún dvaldi, þannig að hún gekk á hótelstjórann og skammaði hann fyrir að allt færi í sömu körfuna,“ rifjar Sigurpáll upp og hlær.

„Þannig að ef þetta er farið að hafa áhrif úti í heimi þá erum við að gera eitthvað rétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert