Misst öll tengsl við fjölskyldu og vini

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Verjandi fyrrverandi eiganda kampavínsklúbbsins Strawberries gagnrýndi „óeðlilegan drátt“ á rannsókn málsins gegn honum og sagði að ekkert geti réttlætt þessar tafir.

„Málið er búið að taka rúm fjögur ár og stærstan hluta þess tíma gerist ekki nokkur skapaður hlutur,“ sagði hann við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Slæm áhrif á heilsuna

Verjandinn sagði að málið hefði haft slæm áhrif á ákærða. Hann sé orðinn 75% öryrki, hafi greinst með sykursýki og sé búinn að missa öll tengsl við fjölskyldu og vini.

Einnig hafi samfelld blaðaumfjöllun hjá stærstu fjölmiðlum landsins haft mikil áhrif á hann, þar sem starfsemi Strawberries hafi verið tengd við vændi, mansal og fleira. Þær upplýsingar hafi komið frá lögreglunni. Umfjöllunin hafi farið fram að meðaltali á 18 daga fresti í 4 ár.

Fjárhagslegt tjón 

Verjandinn benti á að þrívegis hafi verið látið reyna á kyrrsetningu á eignum ákærða. Alltaf hafi verið sagt að rannsókn væri á lokametrunum. „Þessi töf hefur valdið gríðarlegu fjárhagslegu tjóni,“ sagði hann og greindi frá að fyrirtækin Trucks og X-men hafi farið á hausinn, auk þess sem Strawberries hafi verið svipt rekstrarleyfi á grundvelli þess að þar væri stundað mansal og vændi. Síðar hafi komið í ljós að það hafi ekki reynst rétt.

Strawberries.
Strawberries. mbl.is/Ómar Óskarsson

Óréttlát málsmeðferð

Í tengslum við málið var farið fram á upptöku á tveimur fasteignum mannsins, fjölda bifreiða, meðal annars Cadillac, Corvette, Ford Thunderbird og BMW 3-seríu, og fjölda vörubifreiða.

Verjandinn sagði að lítil verðmæti séu í bifreiðunum. Annar hver bíll hafi verið afskráður. Tveir bílanna séu 15 til 18 ára gamlir. „Maður veltir fyrir sér, á að gera slíka muni upptæka?“

Verjandinn sagði að málsmeðferð hafi ekki verið réttlát því ákærði hafi ekki fengið að sjá gögn málsins til að fá tækifæri til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri.

Jafnframt sagðist hann hafa sýnt fram á að ákærði hafi eignast íbúð sína með lögmætum hætti og fjármunir til kaupanna hafi ekki komið frá Strawberries.

Fangelsi og 242 milljónir í sekt

Í munnlegum málflutningi saksóknara kom fram að ákærði hafi sýnt „stórkostlegt hirðuleysi“ við að halda reiður á fjármálum sínum, þar á meðal í tengslum við skattframtöl sín. Sagði saksóknari að ákærði hafi haft fullan aðgang að fjármunum Strawberries og ráðstafað þeim fyrir sjálfan sig.

Saksóknari fer fram á blandaðan dóm yfir ákærða. Gerð er krafa um 16 til 18 mánaða fangelsi og kr. 242.130.000 krónur í sekt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert