Segir vélina ekki hafa „orðið að lenda“

Frá vettvangi á föstudag þegar farþegar fóru frá borði.
Frá vettvangi á föstudag þegar farþegar fóru frá borði. Ljósmynd/Margrét Eiríksdóttir

Hrafn Þor­geirs­son, for­stjóri Pri­mera Air, segir að ekkert hafi komið fram sem bendir til þess að flugvél félagsins hafi orðið að lenda í Keflavík síðdegis á föstudag vegna eldsneytisskorts. Vélin hafnaði utan flugbrautar og er málið til rannsóknar hjá flugmálayfirvöldum.

Veðurskilyrði voru erfið og væntanlega var hálka á brautinni. Þetta er í rannsókn, bæði innanhús hjá okkur og flugmálayfirvöldum. Það tekur einhvern tíma að rannsaka það og það eru svo margar hliðar á hverju atviki fyrir sig,“ segir Hrafn og bætir við að flugmennirnir hafi ekki verið óvanir að fljúga til Íslands.

Starfsmaður ISAVIA sem var meðal annarra farþega á áfallafundi Rauða krossins á laugardag sagði flugstjórann hafa „orðið að lenda“ eins og hann orðaði það. Hrafn segist hafa séð slíka umræðu í kommentakerfum fjölmiðla.

„Það eru alltaf varavellir og maður áætlar flugið þannig að maður fer á varavöll ef maður getur ekki lent á þeim velli sem maður ætlar sér. Ég sá í einhverju kommentakerfi eða slíku að hann hefði orðið að lenda. Við vitum ekkert hvaðan sú vitneskja er komin en okkur er ekki kunnugt um neitt slíkt. Það var ekkert með eldsneytið að við höldum.“

Þannig að þið vitið ekki til þess að hún hafi verið mjög bensínlítil?

Alls ekki. Það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess.

Hrafn Þorgeirsson, forstjóri Primera Air.
Hrafn Þorgeirsson, forstjóri Primera Air.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert