Fé aukið til lyfjakaupa

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Golli

Heilbrigðisráðherra í samstarfi við fjármálaráðherra undirbýr fjármögnun á nýjum dýrum lyfjum. Ákvörðun verður tekin um innleiðingu þeirra á næstunni. Þetta kom fram í máli Óttars Proppé heilbrigðisráðherra í sérstakri umræðu um lyfjaneyslu Íslendinga á Alþingi. Málshefjandi var Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar.   

Óttarr benti á að nýjum lyfjagagnagrunni er ætlað að auðvelda betra utanumhald um lyfjanotkun landsmanna sem jafnframt verður notaður í leiðbeiningarskyni. Hann tók undir orð Guðjóns um að margt mætti betur fara í heilbrigðisþjónustunni og vísaði meðal annars til þess að landlæknir hafi bent á að skipulag á heilbrigðiskerfinu væri brotakennt miðað við hin Norðurlöndin. Hann sagðist vilja beita sér fyrir því að þessi mikla lyfjanotkun Íslendinga verði skoðuð frekar.  

Margir þingmenn ítrekuðu mikilvægi þess að fólk hefði aðgang að sálfræðiþjónustu og geðlæknum sem meðal annars þyrfti að vera stærri hluti af greiðsluþátttökukerfi sjúklinga.

„Við förum eftir geðheilbrigðisáætlun og náum að vinna hraðar eftir henni en til stóð,“ sagði Óttarr í svari við fyrirspurnum um eflingu geðheilbrigðisþjónustu. Fleiri sálfræðingar hafa verið ráðnir til heilsugæslunnar. 

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, benti á að Ísland hefði dregist aftur úr þegar kemur að innleiðingu nýrra lyfja. Í sama streng tóku fleiri þingmenn sem stigu í pontu, meðal annars samflokksmaður hennar, Steingrímur J. Sigfússon. 

Steinunn ítrekaði mikilvægi þess að sjúklingar hefðu greiðan aðgang að mikilvægri læknisþjónustu óháð efnahag. Í því samhengi benti hún á að eflaust veigruðu margir læknar sér við því að ávísa langri meðferð til sálfræðinga eða geðlækna vegna kostnaðar fyrir sjúklinginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert