Margir vilja matjurtagarð

Það er nóg að gera þegar uppskeran er í skólagörðunum.
Það er nóg að gera þegar uppskeran er í skólagörðunum. mbl.is/Eggert

Talsverð eftirspurn er eftir matjurtagörðum á höfuðborgarsvæðinu og enn er hægt að sækja um reit til að rækta grænmeti í Reykjavík og í Kópavogi. Sumarleiga á garðinum er um fimm þúsund krónur. Alls átta hundruð matjurtagarðar eru leigðir út á vegum borgarinnar, þar af eru tvöhundruð í Skammadal. Í Kópavogi eru 220 garðlönd til úthlutunar á sex stöðum. Búið er að ráðstafa um helming þeirra en í fyrra voru um 85% garðanna nýttir. Garðbæingum gefst einnig kostur á að sækja um matjurtagarða á tveimur stöðum í bænum. 

Mynd tekin í byrjun maí í fyrra í matjurtagarðinum í …
Mynd tekin í byrjun maí í fyrra í matjurtagarðinum í Þorragötu í Vesturbænum. Langur biðlisti er að fá úthlutað í þeim garði. mbl.is/Ófeigur

300 skólagarðar í Kópavogi

Um 300 skólagarðar eru í Kópavogi fyrir grunnskólanemendur. Ásókn í slíka garða hefur aukist aftur en þegar Reykjavíkurborg lagði niður sína skólagarða dró talsvert úr eftirspurninni, að sögn Friðriks Baldurssonar garðyrkjustjóra Kópavogs. Hann telur líklegt að margir hafi talið að skólagarðarnir hafi líka verið lagðir niður þar á bæ en sú var ekki raunin. 

„Við þurfum að halda áfram að kenna krökkunum að grænmetið kemur ekki úr Bónus,“ segir Friðrik. Hann er vongóður um að enn fleiri nemendur eigi eftir að sækja um skólagarðana í sumar en í fyrra sóttu 180 um garðana. Þeir fá meðal annars úthlutað spíruðum kartöflum.

Garðabær býður einnig upp á skólagarða.

Allt er vænt sem vel er grænt.
Allt er vænt sem vel er grænt. mbl.is/Sigurmundur

Vesturbærinn enn á ný vinsælastur 

„Þetta er að aukast ef eitthvað er,” segir Guðný Arndís Olgeirsdóttir rekstrarstjóri í verkbækistöð I hjá Reykjavíkurborg en hægt er að leita ráða til hennar um garðana og matjurtaræktun. Enn er hægt að sækja um lausa garða í Reykjavík en eitthvað af görðum er eftir í Fossvogi og í Grafarvogi. Hins vegar eru öll beð í Þorragötu í Vesturbænum frátekin. Síðustu ár hefur verið langur biðlisti í að fá garð þar. „Það er draumur að geta bætt við görðum í Vesturbænum,“ segir Guðný. 

Margir eru með sömu garðana milli ára og þarf fólk að sjá alfarið að um þá og tæta þá upp. „Það er alltaf gott að byrja sem fyrst að tæta og hreinsa garðinn upp,“ segir Guðný og hvetur fólk til að fara að huga að þessum störfum. Senn líður að því að fólk setji niður grænmeti en skoða þarf veðurspána vel áður hafist er handa því ekki er gott að það frysti. 

Hér hægt að skoða nánar hvaða garðar eru lausir í Reykjavík

Hér er hægt að kynna sér matjurtagarða í Kópavogi. 

Hér í Garðabæ

Vel markaðir reitir í skólagörðum.
Vel markaðir reitir í skólagörðum. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert