Vilborg Arna reynir við Everest-tind

Vilborg Arna freistar þess að ná á tind Everest um …
Vilborg Arna freistar þess að ná á tind Everest um miðjan maí.

Vilborg Arna Gissurardóttir er nú stödd í grunnbúðum Everest og stefnir á toppinn. Þetta verður þriðja tilraun Vilborgar til að klífa hæsta fjall heims en leiðangrar hennar árin 2014 og 2015 hlutu skjótan endi í kjölfar mannskæðustu náttúruhamfara sem orðið hafa á fjallinu.

Sextán létust þegar snjóflóð féll á Khumbu-skriðjöklinum árið 2014 og 19 þegar 7,8 stiga skjálfti hratt af stað snjóflóði á tindinum Pumori, sem féll beint á grunnbúðirnar í suðurhlíðum Everest.

Í bæði skiptin var Vilborg Arna á fjallinu og sagðist hún í kjölfar seinni harmleiksins óviss um hvort hún myndi reyna í þriðja sinn.

„Ég hafði lítinn áhuga á að klifra eftir að ég kom heim, eins og gerist ef til vill þegar fólk upplifir svona. En ég er og verð alltaf fjallaklifrari í hjartanu og smám saman kom löngunin til baka. Það var svo síðasta haust að ég kom hingað aftur til þess að finna hvort ég væri tilbúin til að takast á við þetta verkefni og sú var raunin,“ sagði Vilborg í samtali við mbl.is í gær.

Síðan þá hefur hún unnið dag og nótt að yfirstandandi leiðangri, sem hófst formlega 11. apríl sl.

„Það er vissulega erfitt að fara af stað í þriðja skiptið og sérstaklega eftir það sem á undan er gengið en ég vissi að mér myndi þykja erfiðara að reyna ekki,“ segir Vilborg um ákvörðun sína.

„Þess vegna hef ég markvisst verið að horfast í augu við óttann og reyna að sjá fyrir mér hvernig ég ætla að takast á við ákveðna þætti. Í þetta skipti hef ég lagt gríðarlega áherslu á andlegan undirbúning og svo auðvitað stundað líkamsrækt, undir stjórn Unnar Pálmars.“

Everest-fjall rís 8.848 metra yfir sjávarmál.
Everest-fjall rís 8.848 metra yfir sjávarmál. AFP

Að brjóta múra

Að koma í grunnbúðirnar síðastliðið haust var „rússíbanareið“ að sögn Vilborgar en í vor fór hún um svæðið með hópa Íslendinga og var því vel undirbúin þegar í grunnbúðirnar var komið 11. apríl sl.

Hún segir háfjallaleiðangra reyna gríðarlega á andlega; biðin virðist endalaus, óvissa um færð og hvort toppinum verði náð. Þá hafi reynslan kennt henni að taka engu sem sjálfsögðum hlut.

„Ég er búin að vera hérna í nokkrar vikur og mér hefur gengið vel að takast á við aðstæður. Ég var til að mynda uppi í búðum eitt nákvæmlega tveimur árum upp á dag eftir að ég var þar síðast og upplifði jarðskjálftann. Ég hef reynt að horfa á þetta þannig að ég sé að brjóta múra og eignast vonandi jákvæðari upplifun og reynslu en síðast,“ segir Vilborg.

„Ég á marga góða vini hér og þykir ákaflega vænt um þennan stað. Ég hefði ekki komið til baka nema ég væri tilbúin,“ svarar hún spurð að því hvort hún sé búin að vinna úr hinni erfiðu reynslu.

Bíður „veðurgluggans“

Að þessu sinni fer Vilborg á fjallið algjörlega á eigin vegum og klifrar ein. Sér til aðstoðar hefur hún heimamann að nafni Tenjee Sherpa, sem hefur unnið á fjallinu í nokkur ár. Þau deila tjaldi en Vilborg ber búnað sinn sjálf.

Hinu svokallaða hæðaraðlögunarferli er lokið í bili en fyrir fjórum dögum rufu Vilborg og Tenjee 7.000 metra múrinn og komust upp í þriðju búðir.

Aðlögunin felst í því að gera líkamanum kleift að venjast hæðinni og gera hann tilbúinn til að takast á við „lokahnykkinn“, að sögn Vilborgar, en það er gert með því að ferðast upp og niður fjallið í áföngum og bæta smám saman við hæðina.

Frá því í haust hefur Vilborg unnið að því dag …
Frá því í haust hefur Vilborg unnið að því dag og nótt að undirbúa leiðangurinn. En hún hefur reyndar líka gert ýmislegt annað, t.d. leiðsagt Íslendingum í Nepal.

Þegar veðurglugginn opnast tekur fjóra daga að fara úr grunnbúðunum á toppinn en samkvæmt Vilborgu á enn eftir að tryggja leiðina upp.

En hvenær gæti hún þá mögulega „toppað“?

„Það er mjög erfitt að segja til um á þessari stundu en mjög gjarnan er það um miðjan mánuðinn,“ svarar Vilborg. „Gæti verið nokkrum dögum fyrr eða eftir; allt breytilegt eftir árum.“

Hvað borða menn á Everest?

Það er margt um manninn í grunnbúðunum, sem skýrist e.t.v. af því að færri fóru á fjallið í fyrra en venjulega. Um 370 hafa fengið leyfi til að klífa Evererst í ár en Vilborg segir marga hætta við, m.a. vegna veikinda.

Vilborg segir afar mikilvægt að fá næga hvíld í grunnbúðunum.

„Við segjum stundum í gríni að þetta sé svona: eat, sleep and repeat,“ segir hún. „Við erum að undirbúa okkur andlega og líkamlega undir næstu átök. Það reynir gríðarlega á kroppinn að vera svona hátt uppi og því skiptir miklu máli að nærast vel.“

En þá vaknar spurningin: hvað borða menn á Everest?

„Ég hef verið nokkuð ströng á mataræðið í þessari ferð. Valið vel og borðaði til að mynda mitt fyrsta nammi í þessari ferð bara rétt áðan,“ svarar Vilborg.

„Matseðillinn er mismunandi en ég fæ ávallt hreint jógúrt og ávexti í morgunmat og góðan kaffisopa. Hádegismaturinn er oft eitthvað létt eins og til dæmis samloka eða rótargrænmeti. Á kvöldin er oft karrýkjúlli með hrísgrjónum, jafnvel heimagerð pizza, og í kvöld fengum við uppáhaldið mitt, sem er sherpa-kássa sem er alveg eins og okkar kjötsúpa. Frábær næring!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert