Leikskólagjöld í Reykjavík lækka

Leikskólinn Rauðhóll í Norðlingaholti.
Leikskólinn Rauðhóll í Norðlingaholti. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarráð hefur samþykkt tillögu um að lækka leikskólagjöld í Reykjavík um 200 milljónir króna á ársgrundvelli.

Tillagan var samþykkt með atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna.

„Lagt er til að leikskólagjöld í Reykjavík verði lækkuð um 200 m.kr. á ársgrundvelli í samræmi við samstarfsyfirlýsingu meirihluta borgarstjórnar í ljósi niðurstöðu ársreiknings Reykjavíkurborgar 2016. Lækkuninni var frestað til að auka mætti fjárframlög til skólastarfs sl. haust,“ segir í fundargerð borgarráðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu hins vegar atkvæði gegn tillögunni og lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn lækkun leikskólagjalda um 200 milljónir króna þar sem full þörf er á umræddum fjármunum til að bæta fjársvelta leikskóla borgarinnar. Nefna má að viðhaldi fjölmargra leikskóla og leikskólalóða er ábótavant, aðstæður starfsmanna eru víða ófullnægjandi og fjárveitingar til fæðiskaupa skornar við nögl. Rétt er að nota umrædda fjármuni til umbóta á leikskólum í stað þess að lækka leikskólagjöld.“

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá við afgreiðslu málsins og lagði hann fram svohljóðandi bókun:

„Það er afstaða Framsóknar og flugvallarvina að meirihlutanum sé ekki stætt á því að koma fram með tillögu um lækkun leikskólagjalda án þess að tryggt sé að fæðisgjald hækki ekki á móti, en síðast þegar þetta var reynt til að uppfylla samstarfssáttmála meirihlutans þá var fæðisgjald hækkað um þá fjárhæð sem lækkunin nam og því um málamyndalækkun að ræða. Þá var það síðasta haust sem fæðisgjald á nemendur grunnskóla var hækkað á öll börn og hefur það ekki verið tekið til baka.“

Ráðhúsið í Reykjavík.
Ráðhúsið í Reykjavík. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert