Makaði blóði á veggi

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í 18 mánaða fangelsi fyrir húsbrot, þjófnaði, tilraun til ráns, hylmingu og fíkniefnalagabrot.

Maðurinn, Baldur Kolbeinsson, framdi brotin í Reykjavík á þessu ári. Hann var sakaður um fjölmörg brot, m.a. fyrir tilraun til þjófnaðar í janúar með því að hafa brotist inn í íbúð og stolið þaðan fartölvu og skartgripum. Hann var hins vegar handtekinn á leið út úr íbúðinni. 

Þá var Baldur „sakaður um að hafa framið húsbrot í febrúar með því að hafa í félagi við annan mann brotið rúðu í svalahurð íbúðar og farið heimildalaust inn í mannlausa íbúðina og valdið skemmdum með því að maka blóði á veggi hennar. 

Hann var einnig sakaður um tilraun til ráns í febrúar á bifreiðastæði við Bifreiðastöð Íslands. Þar tók hann heimildarlaust tösku annars manns og fór síðan inn í Bifreiðastöðina. Þegar eigandinn hugðist fá töskuna til baka krafist Baldur gjalds af manninum fyrir að skila töskunni. Hann réðst með ofbeldi að manninum, ýtt honum frá hraðbanka hvar hann var að taka út fjármuni, og gerði tilraun til þess að taka með ofbeldi 5.000 kr. sem voru að koma úr hraðbankanum. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að Baldur hafi játað brot sín skýlaust. Hann er fæddur árið 1990 og á að baki sakaferil. Frá árinu 2007 hefur hann tólf sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni.

Þá segir, að hann hafi með dómi Héraðsdóms Suðurlands 27. september 2013, sem staðfestur var í Hæstarétti 30. janúar 2014, verið dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni. Þá var hann með dómi héraðsdóms 6. nóvember 2011 dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir brot gegn hegningarlögum. Hann var 17. desember 2015 dæmdur í 2ja mánaða fangelsi fyrir þjófnað. Loks var hann 11. janúar sl. dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir hegningarlagabrot. Brot ákærða nú eru öll ítrekun við fyrri brot Baldurs. 

Hann er enn fremur dæmdur til að greiða 505.000 kr. í málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns og þá eru tæp fimm grömm af amfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn, gerð upptæk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert