Vilborg Arna lætur hjartað ráða för

Vilborg Arna er farin af stað í sinn þriðja Everest-leiðangur.
Vilborg Arna er farin af stað í sinn þriðja Everest-leiðangur. Ljósmynd/Vilborg Arna Gissurardóttir/Instagram.

Hún fletti bókum um ævintýraferðir í sófanum heima og lét sig dreyma. Áratug síðar skíðaði hún ein síns liðs á suðurpólinn. Síðan var stefnan tekin á hæstu tinda heimsálfanna sjö. Að klífa Everest mistókst af óviðráðanlegum orsökum í fyrstu atrennu. Og þeirri annarri. En Vilborg Arna Gissurardóttir gefst ekki upp. Hún er enn á ný komin af stað upp hlíðar hæsta fjalls heims. Þriðji Everest-leiðangur hennar er formlega hafinn.

Fyrir ári var hún spurð í viðtali hvort hún ætlaði að reyna aftur við tindinn. „Ég bara veit það ekki,“ sagði hún þá. „En markmiðið mitt er að vera tilbúin til þess, einhvern tímann, eftir allt sem á undan er gengið.“

Nú er hún tilbúin.

Greinin heldur áfram fyrir neðan færsluna.

Látið ykkur dreyma

Vilborg Arna kann þá kúnst að láta drauma sína rætast. Hún hefur síðustu misseri hvatt aðra til að gera slíkt hið sama.

„Ég hvet ykkur til að dagdreyma. Ef þið látið ykkur dagdreyma nógu mikið gætuð þið komist þangað á endanum,“ sagði hún í fyrirlestri á TEDxReykjavík í fyrra. „Hjartað er besti áttavitinn.“

Ævintýraför hennar öll, allt frá sófanum fyrir fimmtán árum, á suðurpólinn og á topp sex og vonandi bráðum sjö fjallstinda, hefur verið sigrum stráð en einnig þyrnum.

Finndu leiðina

En hver er þessi ævintýragjarna og einbeitta kona?

Vilborg Arna Gissurardóttir er fyrirmynd margra þegar kemur að áskorunum af ýmsu tagi, útivist og heilbrigðum lífsstíl. Einkunnarorð hennar eru: „Ef þú þráir eitthvað nógu heitt, þá finnurðu leiðina – annars finnurðu bara afsökunina.“

„Ég er svo hræðilega þrjósk að ég held að þeim sem eru í kringum mig finnist það ekki alltaf mjög skemmtilegt,“ sagði Vilborg um sjálfa sig og þrautseigjuna sem einkennir hana í viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson í þættinum Mannamáli á Hringbraut í fyrra.

Vilborg Arna ásamt kærasta sínum, Tomaszi Þór Verusyni, á toppi …
Vilborg Arna ásamt kærasta sínum, Tomaszi Þór Verusyni, á toppi Island Peak í fyrra. Ljósmynd/Vilborg Arna

Hún sagði það ástríðuna sem drífi sig áfram.

Og af henni hefur hún nóg. Að mati Vilborgar er mikil vinna hæfileikum fremri. Með öðrum orðum: Þeir sem eru tilbúnir að leggja á sig vinnu, þeir ná árangri. Hún er ekki áhættufíkill eins og margan grunar kannski, heldur leitast hún við að vera vel undirbúin fyrir verkefnin sem hún tekur sér fyrir hendur.

Vilborg Arna er fædd 16. júní árið 1980 og er því 36 ára gömul. Hún er alin upp í Reykjavík að mestu leyti. Á yngri árum var hún með nokkuð brotna sjálfsmynd. „Þetta gekk nokkuð brösuglega framan af, svona vægast sagt, og ég hafði heldur ekki mikla trú á sjálfri mér,“ sagði hún í viðtalinu við Sigmund Erni fyrir ári. Á meðan vinir hennar á menntaskólaárunum voru að velta fyrir sér í hvaða háskólanám þeir ættu að fara fannst Vilborgu slíkt ekki vera neitt fyrir sig.

En svo kom að degi sem breytti lífi hennar. Þann dag gekk hún á Hvannadalshnjúk. Þetta var fyrsta fjallganga Vilborgar Örnu. Hún var þá að vinna á hóteli á Kirkjubæjarklaustri og á byggingunni var gluggi sem vísaði í austur – í átt að Vatnajökli. Allt í einu fór hana að langa að ganga á hnjúkinn. „Þetta var fyrsti draumurinn minn í raun og veru.“

Í myndskeiðinu hér að neðan má sjá áhrifaríkt viðtal Sigmundar Ernis við Vilborgu. Greinin heldur áfram fyrir neðan myndskeiðið.

Uppgötvaðu ástríðuna

Vilborg lét þennan draum rætast. Þetta var háskaferð að hennar sögn. Það var vont veður og hún ekki vel undirbúin. „Það skipti mig miklu máli að vera smart, svo ég mætti í rosalega flottum gönguskóm,“ rifjaði Vilborg upp í viðtalsþættinum Mannamáli og hló. „Þeir voru of litlir á mig og ekki einu sinni vatnsheldir.“

Hún sagðist í raun hafa gert allt rangt í þessu ferðalagi en engu að síður unnið sigur. „Ég vann persónulegan sigur. Í fyrsta skipti í mjög langan tíma. Það breytti öllu. Ég fann sjálfa mig, fann ástríðuna mína.“

Í kjölfarið gekk Vilborg Arna til liðs við björgunarsveit. Innan skamms kviknaði svo áhuginn á frekara námi. Áður en hún vissi af hafði hún lokið bæði grunn- og framhaldsnámi í háskóla. „Þetta var bara þessi eini dagur, sem ég fann til að byggja upp þessa brotnu sjálfsmynd,“ sagði hún um sjálfsvinnuna sem hófst með göngu á hæsta fjall Íslands. Þægindahringurinn víkkaði og sjálfstraustið jókst.

Fylgdu hjartanu

Vilborg Arna fann smám saman trúna á sjálfa sig. „Maður þarf að finna sína fjöl og sinn stað í lífinu. Og fylgja sínu eftir. Við erum öll með áttavita og áttavitinn okkar heitir hjarta. [...] Lífið snýst um að fylgja hjartanu sínu og ég held að ég hafi gert það.“

Vilborg hefur sagt orðið „náttúrubarn“ lýsa sér best. Leiðangrarnir hennar snúist um ferðalagið fyrst og fremst og það sem fyrir augu og eyru ber; upplifunina. Hún hefur farið mjög víða og kynnst mörgum ólíkum menningarheimum. „Þetta er ferðalag, það er það sem þroskar mann. Ekki að ná sjálfum toppi fjallsins.“ Hennar lokatakmark, hennar lokaáfangastað, hefur hún sagt vera að gera sitt besta, „að vera sátt og ánægð í lífinu. Þetta snýst ekki um hversu marga hluti þú átt heldur hvað þú gerir við það sem þú átt.“

Vilborg Arna lauk göngu á suðurpólinn á sextíu dögum.
Vilborg Arna lauk göngu á suðurpólinn á sextíu dögum. mbl.is/Jeffrey Donenfeld

Leyfðu þér að langa

Undir loks árs 2012 tókst Vilborg á við stærsta verkefni sitt fram að þeim tíma: Að skíða einsömul á suðurpólinn. Í viðtali við Sigmund Erni á Hringbraut sagði hún að ekki hefðu allir haft trú á þessari ákvörðun hennar. Hún hafi ekki fallið að þeirri staðalímynd af pólfara sem fólk hafði. „Þetta er sennilega ein besta vitleysa sem ég hef farið út í,“ sagði Vilborg um leiðangurinn í viðtalinu. „En ég vissi í hjartanu að ég yrði að gera þetta. Mig langaði þetta bara svo ótrúlega mikið.“

Vilborg gekk 1.140 kílómetra á 60 dögum. Hún lauk göngunni yfir pólinn 17. janúar 2013 og varð í kjölfarið þjóðhetja. Sigmundur Ernir skrifaði bók um Vilborgu og ævintýrið í kjölfar ferðarinnar, Ein á enda jarðar.

Settu markið á hæsta tind

Þetta sama ár lagði hún upp í enn einn leiðangurinn. Markið var sett á að klífa tinda hæstu fjalla heimsálfanna sjö. Á tíu mánuðum náði hún toppi sex þeirra. En þá var komið að þeim hæsta: Everest-fjalli í Nepal. Það átti eftir að reynast þrautin þyngri.

Árið 2002 las Vilborg bók um mannskæðasta slys í sögu Everest, slysið sem kvikmynd Baltasars Kormáks, Everest, er byggð á.

 „Aldrei hefði mig grunað þá að ég ætti eftir að standa í þeim sporum að upplifa næstmannskæðasta slys í sögu fjallsins. Nú er ég búin að upplifa – og lifa af – tvö [mannskæð slys],“ sagði Vilborg Arna í viðtalinu við Sigmund Erni.

Vilborg reyndi fyrst við Everest vorið 2014. Hún hafði verið …
Vilborg reyndi fyrst við Everest vorið 2014. Hún hafði verið í grunnbúðunum við fjallið í fimm daga í hæðaraðlögunarferli er ósköpin dundu yfir. Hér er hún með Everest í baksýn. Ljósmynd/Vilborg Arna

Vilborg reyndi fyrst við Everest vorið 2014. Hún hafði verið í grunnbúðunum við fjallið í fimm daga í hæðaraðlögunarferli er ósköpin dundu yfir. Snjóflóð féll í Khumbu-skriðjöklinum og sextán létust. „Þetta var alveg hræðileg lífsreynsla,“ rifjaði Vilborg upp í þættinum. „Þetta var vægast sagt mjög erfiður dagur.“

Vilborg tók þátt í björgunar- og aðhlynningarstörfum á vettvangi. „Það eru engin orð sem komast nálægt því að hugga einhvern sem lent hefur í svona slysi.“

Horfstu í augu við óttann

Þegar heim til Íslands var komið fann hún fyrir mikilli sorg og var niðurbrotin. Hún sagðist ekki hafa treyst sér til að ganga á fjöll, ekki einu sinni Esjuna. Hún leitaði sér hjálpar, bæði hjá sálfræðingi og sjúkraþjálfara, og setti sér það markmið að ganga á fjallið Cho Oyu í Tíbet um haustið. „Ég þurfti að komast aftur á stað, fara aftur á bak ef svo má segja.“

Ferðin gekk ekki áfallalaust. Félagi Vilborgar, Atli Pálsson, fékk háfjallaveiki og varð frá að hverfa. Hún ákvað að halda ein áfram og náði toppi fjallsins, þess sjötta hæsta í heimi. Þar með var hún orðin eina konan sem hafði skíðað einsömul á pól og klifið 8.000 metra tind. „Ég hafði horfst í augu við óttann, við það sem hafði valdið mér erfiðleikum og sársauka. [...] Mér fannst ég þurfa að fara inn í þessar aðstæður aftur,“ sagði Vilborg í viðtali í fyrra.

Eyðileggingin í grunnbúðum Everest-fjalls í apríl 2015.
Eyðileggingin í grunnbúðum Everest-fjalls í apríl 2015. AFP

Vorið 2015 var hún komin aftur í grunnbúðir Everest, ákveðin í að reyna við tindinn í annað sinn. Framan af gekk leiðangurinn vel. Vilborg fann fyrir innri átökum, hún hafði jú orðið vitni að hræðilegu slysi á þessum stað árið áður.

Hún var búin að dvelja í fyrstu búðum, ofan grunnbúðanna, eina nótt þegar náttúruhamfarirnar urðu. „Allt í einu verður rosa dynkur. Og það er eins og jörðin sökkvi undan okkur,“ sagði Vilborg í Mannamáli. Hún fór út úr tjaldinu og þá heyrðist mikill hávaði. „Jörðin hristist og maður vissi ekkert hvað var að gerast.“

Gríðarmikill jarðskjálfti, 7,8 stig, hafði orðið. „Það næsta sem við sjáum er snjóflóð og það er að koma í áttina til okkar.“ Vilborg fór ásamt göngufélaga sínum aftur inn í tjaldið og grúfði sig niður. „Við óskuðum þess heitast að [flóðið] myndi ekki ná okkur.“ Þau bjuggust við hinu versta. Hún sagði það hafa verið hræðilega tilfinningu. „Maður verður svo rosalega hræddur.“

Óskir þeirra rættust. Þau sluppu. Það sama var ekki að segja um grunnbúðirnar. Þær þurrkuðust nánast út. Búðirnar sem áttu að vera öruggur staður á fjallinu. Annað kom þarna á daginn. Yfir þrjátíu létust í grunnbúðunum. Þúsundir týndu lífi á landsvísu í skjálftunum.

Þegar hún komst svo loks í grunnbúðirnar daginn eftir blasti eyðileggingin við. Svo sá hún  þegar verið var að bera lík félaga hennar af vettvangi. Enn voru eftirskjálftar. Hún sagðist hafa fundið mikinn vanmátt og mikla sorg. Sex úr leiðangursteymi Vilborgar létust. Hún segir þessa lífsreynslu hafa breytt sér sem manneskju.

„Ég hafði lítinn áhuga á að klifra eftir að ég kom heim, eins og gerist ef til vill þegar fólk upplifir svona. En ég er og verð alltaf fjallaklifrari í hjartanu og smám saman kom löngunin til baka. Það var svo síðasta haust að ég kom hingað aftur til þess að finna hvort ég væri tilbúin til að takast á við þetta verkefni og sú var raunin,“ sagði Vilborg í samtali við mbl.is fyrr í vikunni.

Og nú er hún á leiðinni upp aftur.

Fylgstu með ferðum Vilborgar Örnu á Instagram og hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert