Framkvæmdir við Birkimel og hámarkshraði lækkaður

Göngu- og hjólastígur við Birkimel verður stækkaður.
Göngu- og hjólastígur við Birkimel verður stækkaður. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Á Birkimel verður endurnýjaður göngu- og hjólastígur vestan megin götunnar og verður hámarkshraði lækkaður úr 50 km/klst. í 30 km/klst. Farið verður í þessar framkvæmdir í sumar og áætlaður kostnaður er 10 milljónir króna. 

Lagður verður fjögurra metra göngu- og hjólastígur vestan megin götunnar á milli Hringbrautar og Hagatorgs. Núverandi gangstétt verður breikkuð í átt að lóðarmörkum til að gera pláss fyrir stíginn. Gert er ráð fyrir að gatan verði óbreytt að mestu, en þrengingar verða settar í götu við biðstöðvar til að auka öryggi og bæta aðstöðu fyrir farþega Strætó, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Birkimelur, frá Hringbraut að Hagatorgi, er fjölfarin leið gangandi og hjólandi vegfarenda en börn nýta götuna mikið til að komast til og frá skóla en bæði Haga- og Melaskóli eru í nágrenni Hagatorgs. Þá er talsverð umferð ferðamanna að Radisson Blu Hótel Sögu auk þess sem Þjóðarbókhlaðan stendur við götuna,“ segir jafnframt í tilkynningu. 

Hugmyndir komu frá íbúum um að endurnýja gangstétt og gera hjólastíg í íbúalýðræðisverkefninu Hverfið mitt. Gert er ráð fyrir að minnsta kosti 10 milljónum króna í verkefnið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert