Kærðu starfsleyfi fyrir Thorsil

Kærendur telja umhverfisáhrif verksmiðjunnar óásættanleg.
Kærendur telja umhverfisáhrif verksmiðjunnar óásættanleg.

Landvernd, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Ellert Grétarsson náttúruljósmyndari í Reykjanesbæ kærðu nýverið starfsleyfi Umhverfisstofnunar til handa kísilmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík.

Í fréttatilkynningu kemur fram að kærendur telji umhverfisáhrif verksmiðjunnar óásættanleg, ekki síst í ljósi nálægðar við þéttbýli, þ.m.t. rýrnum loftgæða, hávaða og 4 til 13% aukningar útlosunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

„Þá er umhverfismati framkvæmdarinnar verulega ábótavant að mati kærenda, m.a. kanni það ekki samvirk áhrif verksmiðjunnar, öflunar orku og flutnings hennar á svæðið. Þá veki furðu að Umhverfisstofnun veiti starfsleyfi fyrir helmingi stærri verksmiðju en ívilnanasamningur íslenska ríkisins við Thorsil og samningar fyrirtækisins við Landsvirkjun og Landsnet gera ráð fyrir. Gjalda kærendur varhug við frekari starfsleyfum til mengandi starfsemi í Helguvík,“ segir í tilkynningunni.

Úrskurðarnefnd ógilti fyrra starfsleyfi

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd kærðu útgáfu Umhverfisstofnunar á starfsleyfi kísilmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík í september 2015 og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi leyfið úr gildið í lok október 2016. Umhverfisstofnun gaf út nýtt leyfi í febrúar 2017 sem samtökin kærðu ásamt Ellert Grétarssyni náttúruljósmyndara og íbúa í Reykjanesbæ, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Neikvæð umhverfisáhrif

„Margvísleg neikvæð umhverfisáhrif eru fyrirséð af starfsemi Thorsil, þ.m.t. stóraukin losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum, rýrnun loftgæða, neikvæð sjónræn áhrif og hávaði. Ekki er tekið nægilegt tillit til þessara þátta við leyfisveitingu UST. Þá er ekki gætt að því hvernig starfsemin samræmist alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum, en aukning útlosunar hérlendis vegna þessarar einu verksmiðju yrði um 4-13%, sbr. nýjar útlosunartölur Umhverfisstofnunar.“ 

Í tilkynningunni segir að verulegir ágallar hafi verið í umhverfismati vegna verksmiðjunnar.

„Í umhverfismati voru hvorki staðarvalkostir né svokallaður núllkostur, að byggja ekki verksmiðjuna, metnir líkt og lög gera ráð fyrir. Ekki voru heldur metin áhrif verksmiðjunnar á nýtingu náttúruauðlinda, þ.e.a.s. samvirk áhrif verksmiðjunnar, raforkuöflunar og lagningar háspennulína. Loks var ekki metinn sá kostur að verksmiðjan væri smærri í sniðum. Hið síðastnefnda vekur furðu þar sem ívilnanasamningur sá sem íslenska ríkið veitti Thorsil, auk samninga fyrirtækisins við Landsvirkjun um raforkukaup og um orkuflutning við Landsnet, gera allir ráð fyrir helmingi minni verksmiðju en þeirri sem UST veitti starfsleyfi fyrir. Að mati kærenda hefði Skipulagsstofnun átt að vísa frummatsskýrslu Thorsil frá vegna þessara ágalla. Ekki voru því forsendur til útgáfu starfsleyfisins.“

Kærendur telja að nóg sé komið af mengandi stóriðju í Helguvík. „Tekið er undir varúðaráminningu í áliti Skipulagsstofnunar um að staldra við eftir hvern áfanga við byggingu verksmiðja á svæðinu og skoða hver umhverfisáhrifin eru. Með útgáfu starfsleyfisins hefur Umhverfisstofnun ekki fallist á þessa ábendingu Skipulagsstofnunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert