Niðurstaða kærunefndar vonbrigði

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í dag.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segist ósammála niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála sem úrskurðaði í gær að ráðning skrifstofustjóra í fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi brotið gegn jafnréttislögum. Segist hann hafa litið á það sem skyldu sína að ráða í starfið hæfasta einstaklinginn sem hann hafi gert.

Í samtali við mbl.is segir Bjarni að varðandi þetta tiltekna mál hafi það verið vonbrigði að sjá niðurstöðu kærunefndarinnar. „Ég er ekki sammála niðurstöðunni, enda var ég að fylgja minni sannfæringu og hún stóð til þess að það væri einn umsækjandi hæfari öðrum. Kærunefndin, eftir að hafa lesið gögnin, kemst að annarri niðurstöðu. Í sjálfu sér ekki margt um það að segja, en það breytir ekki minni sannfæringu eins og hún stóð í þessu máli,“ segir Bjarni.

Spurður hvort hann telji að breyta þurfi verklagi í ráðuneytum varðandi ráðningar í kjölfar þessarar niðurstöðu segir hann að nú sé unnið að því að yfirfara forsendur úrskurðarins og að lagt verði mat á það hvort ríkið vilji láta reyna á sjónarmiðin sem þar komi fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert