Stóriðja og flugfélög sinni landgræðslu

Björt Ólafsdóttir á fundinum í morgun.
Björt Ólafsdóttir á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur rætt við fulltrúa stóriðjufyrirtækja og flugfélaga um að þau komi að landgræðslu- og skógræktarverkefnum sem mótvægi við þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem fer frá þeim út í andrúmsloftið.

„Það hefur verið tekið vel í þær hugmyndir og ég vonast til að stóriðjan og flugfélögin komi með okkur í það,“ sagði Björt í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu að loknum undirritun samstarfsyfirlýsingar um aðgerðir í loftslagsmálum.

„Þessi fyrirtæki losa vissulega mikið af kolefni. Þau borga fyrir þessa losun í gegnum alþjóðlega kerfið ETS,“ sagði hún og á við svokallaða græna skatta. „Það er ágætt kerfi því það hvetur til grænnar hegðunar. Það hvetur til þess að þessi fyrirtæki dragi úr sinni losun einfaldlega af því að það er of dýrt fyrir þau að menga. Það skiptir máli fyrir þau að hafa þann hvata.“

Að sögn Bjartar hefur aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar verið í undirbúningi síðan hún settist í stól umhverfis- og auðlindaráðherra. Hún sagði mikilvægt að fleiri ráðuneyti kæmu að verkefninu og nefndi að mikill áhugi væri hjá sveitarfélögum, iðnfyrirtækjum sem og öðrum fyrirtækjum að taka þátt. Almenningur hefur líka tekið vel í áætlunina.

„Það skiptir máli að við hleypum öllum sjónarmiðum að til þess að við í stjórnskipuninni fáum hugmyndir og leitum raunhæfra lausna sem geta virkað vel.“

Frá blaðamannafundinum í morgun.
Frá blaðamannafundinum í morgun. mbl.is/Eggert

Hvað getur almenningur gert til að taka þátt í áætluninni?

„Hann getur gert fjölmargt. Það sem snýr helst að almenningi er minni sóun og að nýta hluti betur,“ sagði hún og nefndi flokkun sorps sem mikilvægan þátt. Einnig sagði hún mikilvægt að almenningur nýtti betur almenningssamgöngur frekar en til dæmis að vera með marga einkabíla á heimilinu sem geta mengað mikið. „Almenningur getur verið með okkur í orkuskiptum í samgöngum. Það er vel raunhæft að Íslendingar keyri um á annaðhvort rafmagnsbílum, metan- eða vetnisbílum enda er það hagkvæmt fyrir heimilin.“

Opnaður verður vefaðgangur þar sem almenningur getur komið með sínar tillögur. „Það skiptir miklu máli að þetta sé samstarfsverkefni þvert á ráðuneyti. Við þurfum að standa okkur svo að almenningur hafi trú á því að aðgerðir hans sem eru kannski litlar í stóra samhenginu, skipti raunverulega máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert