„Þessi gjörningur er svik við starfsmenn“

Fjölbrautaskólinn við Ármúla.
Fjölbrautaskólinn við Ármúla. Ljósmynd/fa.is

Kennarar og aðrir starfsmenn Fjölbrautaskólans við Ármúla mótmæla harðlega áformum menntamálaráðherra um sameiningu FÁ og Tækniskólans. Ekkert samráð hafi verið haft við kennara né aðra starfsmenn, fyrir utan stjórnendur.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá starfsfólki FÁ. Þar segir enn fremur að engar skýringar hafi verið gefnar á því að það hafi þurft að framkvæma þetta í svo miklum flýti. 

„Verður ekki séð að nein skynsamleg rök hafi komið fram fyrir þessari yfirtöku og má ætla að önnur sjónarmið búi að baki en fækkun nemenda á framhaldsskólastigi. Þessi gjörningur er svik við alla þá starfsmenn sem lagt hafa lífsstarf sitt í að byggja upp góðan skóla fyrir alla nemendur,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni og þá eru stjórnvöld hvött til að taka ákvörðun í þessum efnum með upplýstum hætti:

„Starfsmenn Fjölbrautaskólans við Ármúla telja sig eiga rétt á að þeir séu hafðir með í ráðum þegar fjallað er um starf og framtíð skólans. Yfirgangur og skeytingarleysi í framkomu við starfsfólk og nemendur er ekki sæmandi í lýðræðisþjóðfélagi.“

Yfirlýsingu má sjá í heild sinni hér fyrir neðan: 

Kennarar og aðrir starfsmenn skólans mótmæla harðlega áformum menntamálaráðherra um að Tækniskólinn yfirtaki Fjölbrautaskólann við Ármúla og taki yfir rekstur hans. Ekkert samráð hefur verið haft við kennara né aðra starfsmenn, utan stjórnendur, né skýringar gefnar á því að þetta þurfi að framkvæma í svo mikilli skyndingu. Verður ekki séð að nein skynsamleg rök hafi komið fram fyrir þessari yfirtöku og má ætla að önnur sjónarmið búi að baki en fækkun nemenda á framhaldsskólastigi. Þessi gjörningur er svik við alla þá starfsmenn sem  lagt hafa lífsstarf sitt í að byggja upp góðan skóla fyrir alla nemendur.

Við krefjumst þess að stjórnvöld taki ákvarðanir í þessum efnum með upplýstum hætti og geri skýra grein fyrir þeim. Starfsmenn Fjölbrautaskólans við Ármúla telja sig eiga rétt á að þeir séu hafðir með í ráðum þegar fjallað er um starf og framtíð skólans. Yfirgangur og skeytingarleysi í framkomu við starfsfólk og nemendur er ekki sæmandi í lýðræðisþjóðfélagi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert