Segir tækifæri geta falist í sameiningunni

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Eggert

„Það er auðvitað ekki búið að taka neina ákvörðun um sameiningu en ég held að í þessu geti falist góð tækifæri,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, í samtali við mbl.is. Nefndin fundaði í dag með Kristjáni Þór Júlíussyni, mennta- og menningarmálaráðherra, vegna hugsanlegrar sameiningar Tækniskólans og FÁ.

Ráðherra ræddi við nefndarmenn á fundinum um þær áætlanir sem hafi verið til skoðunar í ráðuneytinu vegna þessa en að sögn Áslaugar þurfa stjórnvöld að bregðast við þeirri fækkun nemenda sem fyrirséð er að verði í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu í haust. Það þurfi að gera með hagsmuni nemenda að leiðarljósi, einkum hvað varðar námsframboð, en nú stendur yfir greiningarvinna í ráðuneytinu. „Ef hún í raun og veru leiðir það í ljós, að þetta sé bara gott fyrir gæði kennslu, fjölbreytt námsframboð og hagsmuni nemenda, sé ég ekkert því til fyrirstöðu að sameina þessa tvo skóla,“ segir Áslaug.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að ýmsum spurningum sé enn ósvarað vegna málsins, einkum hvers vegna sé verið að skoða að sameina FÁ frekar en aðra skóla við Tækniskólann.

„Skólarnir eru að mörgu leyti líkir og ég held að það geti bara verið góður bragur á því að sameina þessa skóla, sem munu báðir sjá fram á fækkun nemenda, til þess að nýta innviði skólans betur og geta boðið upp á í rauninni þá líka betri innviði og betri gæði,“ segir Áslaug, spurð hvers vegna skoðuð sé sameining akkúrat þessara skóla.

„Það þarf að tryggja það að við bjóðum upp á öflugt og gott iðn- og tækninám og ef það leiðir í ljóðs að þetta geti tryggt það þá held ég að þetta sé skref í rétt átt,“ segir Áslaug að lokum.

Sem fyrr segir stendur greiningarvinnan nú yfir en Áslaug segist telja að það gæti fljótlega legið fyrir, e.t.v. á næstu vikum, hvað kemur út úr henni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert