„Verið að taka feitasta bitann úr opinbera kerfinu“

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrir það fyrsta þá finnst manni pínu ömurlegt hvernig þetta ber að. Að allir sem starfa þarna og eru við nám frétti af þessum pælingum í fjölmiðlum,“ segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, í samtali við mbl.is.

Andrés situr í allsherjar- og menntamálanefnd, en í dag fundaði nefndin með Kristjáni Þór Júlíussyni menntamálaráðherra vegna hugsanlegrar sameiningar Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla. Nichole Leigh Mosty, fyrsti varaformaður nefndarinnar, segir fundinn hafa verið góðan.

Andrés segir að það sem helst sitji eftir eftir fundinn sé það að erfitt sé að sjá hvaða faglegu eða rekstrarlegu rök séu því að baki að skoða sameiningu akkúrat þessara tveggja skóla.

„Af því að við erum þarna með ólíkt rekstrarform. Við erum með FÁ, hann hefur ekki verið rekinn með halla til dæmis undanfarin ár, hann er með fjölbreytt og gott nám, þannig að það eru margir skólar sem myndu græða meira á einhverri sameiningu heldur en FÁ. Þannig að maður spyr sig, hverju á að ná fram með þessu?“ segir Andrés Ingi.

Aðrir skólar standi verr

Hvað þetta varðar segir Andrés að fátt hafi verið um svör á fundinum. Ráðherra hafi þó borið því við að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um sameininguna enda sé greiningarvinnu ekki lokið. „Það er bent á að FÁ sé svona blanda af bóknáms- og starfsnámsskóla, en það eru margir fjölbrautaskólar á höfuðborgarsvæðinu líka sem margir standa verr heldur en FÁ. Þannig að þetta virkar frekar eins og það sé verið að taka feitasta bitann úr opinbera kerfinu og færa yfir til þessa einkaskóla,“ segir Andrés Ingi.

Nefndin fundar aftur með ráðherra á þriðjudag og verður sá fundur opinn og vonast Andrés til að þá liggi fyrir nákvæmari upplýsingar um fyrirhugaða sameiningu. „Við kölluðum eftir ýmsum gögnum fyrir þann fund eins og þróun á nemendafjölda og rekstrarniðurstöðum síðustu ára „concrete“ þannig að við getum séð svart á hvítu hvað er í þessu,“ segir Andrés.

Verið að ræða málin

Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar og fyrsti varaformaður nefndarinnar, segir fundinn aftur á móti hafa verið góðan og upplýsandi. Nú standi yfir greiningarvinna í ráðuneytinu sem ekki sé lokið enn þá og því liggi ekki fyrir að svo stöddu nákvæmlega hvernig málum verði háttað við sameininguna, ef af henni verður. 

Nichole Leigh Mosty er fyrsti varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nichole Leigh Mosty er fyrsti varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Golli

„Hér erum við ekkert að flýta okkur út í bara eitthvað, hér eru menn að ræða málin og greina,“ segir Nichole. Kveðst hún hlakka til að heyra niðurstöður greiningarinnar. „Ég treysti alveg því að ráðherrann muni taka rétta ákvörðun. Alla vegana var áherslan, sem var rædd og lagt upp með á fundinum, mikilvægi náms og að við hugum að því að við bætum námskerfið,“ bætir hún við.

Huga þurfi ekki síður að námi í iðn- og tæknigreinum en slíkar greinar eigi á brattann að sækja, ekki aðeins hér á landi heldur einnig erlendis. Segir hún það ekki hafa verið sína tilfinningu af fundinum að farið hafi verið með málið í skjóli nætur heldur væri greiningarvinnan einfaldlega enn í fullum gangi. Eðlilegt sé að skoða möguleika í þágu þess að bæta kerfið. „Með þessari fækkun nemenda í framhaldsskóla, við eigum að vera reiðubúin að spyrja okkur; hvernig getum við gert betur í rekstri, betri, faglegri forsendur í þetta nám?“ segir Nichole.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert