Upphafið af því að lækka enn frekar

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Golli

Það skref sem var stigið með nýju greiðsluþátttökukerfi sem tók gildi 1. maí felur í sér greiðslujöfnun í grunninn. Samkvæmt þverpólitískri ákvörðun á að lækka greiðsluþátttöku viðkvæmustu hópanna eins og aldraðra, barnafjölskyldna og öryrkja. Þetta segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is.

Nýja kerfið hefur verið gagnrýnt talsvert, meðal annars af ASÍ, Félagi barnalækna og Læknafélagi Reykjavíkur. Þá varð talsverð umræða um málið í þinginu í vikunni og vísuðu stjórnarandstöðuþingmenn í útreikninga ASÍ um að nýja kerfið gæti hækkað kostnaðarþátttöku fjölmargra hópa.

Óttarr sagðist ekki hafa náð að rýna útreikninga ASÍ, en að hafa yrði í huga að verulegum fjármunum væri nú bætt inn í kerfið til að lækka greiðsluþátttöku almennings. Sem fyrr segir kæmi það sér best fyrir viðkvæmustu hópana og benti hann á að nýja kerfið gagnaðist meðal annars þeim hópum sem hefðu þurft að greiða háar upphæðir árlega, eins og krabbameinssjúklinga.

„Grunnhugsunin gerir ráð fyrir að það sé þak sem sé rýmilegt fyrir flesta. Ætlunin er svo að reyna að lækka þakið meira,“ segir Óttarr og vísar til þess að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára sé gert ráð fyrir að setja aukna fjármuni í að minnka greiðsluþátttöku almennings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert