Verið í vinnslu síðan í febrúar

Skólameistari í Tækniskólanum fundaði í hádeginu með starfsfólki Fjölbrautaskólans við …
Skólameistari í Tækniskólanum fundaði í hádeginu með starfsfólki Fjölbrautaskólans við Ármúla. Ljósmynd/Af vef Tækniskólans.

Jón B. Stefánsson, skólameistari í Tækniskólanum, fundaði í hádeginu með starfsfólki Fjölbrautaskólans við Ármúla. Að hans mati gekk fundurinn ágætlega en þar var farið yfir framhaldið vegna fyrirhugaðrar sameiningar Tækniskólans og FÁ.

„Ég held að það hafi gengið vel. Það sem var þar í raun og veru að gerast var að eins og menn vita voru þessar fréttir aðeins á undan áætlun í gær. Það stendur yfir skoðun ráðherra á að þessir skólar verði sameinaðir og við tökum við rekstrinum,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Jón segir að það hafi verið ákveðið kynningarplan í undirbúningi og að hann hafi farið yfir hluti á fundinum sem hann hefði annars farið yfir síðar í ferlinu. „Helsti tilgangurinn var að fara yfir hvernig framtíðin liti út og hvernig þetta snerti einstaklingana,“ segir Jón og bætir við að þetta sé með þeim fyrirvara að skólarnir verði sameinaðir.

Fólk er þá að skipta um vinnuveitanda en fyrir starfsmanninn sjálfan hefur þetta lítil áhrif, kjaralega og réttindalega.

Lítur ekki illa út gagnvart fólkinu

Hann segir að gert sé ráð fyrir því að allir kennarar verði ráðnir áfram. „Auðvitað eru einhverjir sem munu ekki koma, einhverjir sem fara á biðlaun og einhverjir sem eru komnir það nálægt aldri að þeir vilja þá hætta. Að því frátöldu munum við bjóða öllum vinnu. Síðan eru einhverjir með tímabundnar ráðningar, þeir samningar eru metnir og það er metið á hverjum tíma hvað er gert. Þetta lítur ekkert illa út gagnvart fólkinu.“

Spurður að því hversu lengi hugmyndir um sameiningu hefði staðið yfir segir Jón þetta hafa fyrst komið í tal fyrir rúmum tveimur mánuðum. „Fyrstu mómentin í þessu eru seinni partinn í febrúar. Síðan hefur þetta verið í vinnslu og þróun,“ segir Jón og bætir við að báðir skólameistararnir hafi tekið þátt í þessu af heilum hug:

Þetta er ekki að ég sé að gleypa yfir. Ráðherra fól okkur það verkefni að skoða þetta og við komumst að þeirri niðurstöðu að þetta væri fýsilegur kostur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert