Fyrsta fæðing á fæðingarheimili frá 1996

Lítil stúlka fæddist í fæðingarstofu Bjarkarinnar aðfaranótt laugardags. Er það …
Lítil stúlka fæddist í fæðingarstofu Bjarkarinnar aðfaranótt laugardags. Er það fyrsta barnið sem kemur í heiminn á fæðingarheimili hér á landi frá 1996. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Björkin

Lítil stúlka fæddist í nótt á fæðingarstofu Bjarkarinnar og er það fyrsta barn sem fæðist á fæðingarheimili á Íslandi, frá því að fæðingarheimilinu á Eiríksgötu var lokað 1996. Fæðingin gekk ljómandi vel að sögn Hrafnhildar Halldórsdóttur ljósmóður og annars eiganda Bjarkarinnar.

Þær Hrafnhildur og Arney Þórarinsdóttir ljósmóðir, opnuðu fæðingaþjónustuna Björkina árið 2009. „Við byrjuðum á að vera með fæðingarundirbúningsnámskeið. Síðan tókum á móti fyrsta barninu í heimafæðingu ári síðar, þannig að við erum búnar að vera að sinna heimafæðingum í sjö ár,“ segir Hrafnhildur.

Undanfarin tvö ár hafa þær síðan unnið að opnun fæðingastofu. „Við fórum af stað með þessa þjónustu af því að okkur fannst vanta þjónustu fyrir konur sem eru utan af landi, en sem hafa samt áhuga á heimafæðingu. „Það konur hafa verið að óska eftir þjónustu okkar við heimafæðingu í Reykjavík, þó að þær byggju utan á landi og vantaði stað til að fæða á.“

Ljósmæðurnar Hrafnhildur Halldórsdóttir og Arney Þórarinsdóttir eiga og reka Björkina.
Ljósmæðurnar Hrafnhildur Halldórsdóttir og Arney Þórarinsdóttir eiga og reka Björkina. Ljósmynd/Björkin

Komnar með konur á lista í allt sumar

Landlæknir tilkynnti síðan á föstudaginn fyrir viku að fæðingarstofa Bjarkarinnar uppfyllti allar faglegar lágmarkskröfur til að starfrækja fæðingarstofuna. „Frá og með þeim degi máttum við hefja störf og síðastliðna nótt fæddist fyrsta barnið. Þetta var fyrsta barn foreldra sinna, yndisleg lítil stúlka sem vó 14 merkur, og þetta gekk ljómandi vel,“ segir Hrafnhildur

Ljósmæðurnar sem tóku á móti barninu voru þær Harpa Ósk Valgeirsdóttir og Emma Marie Swift, en þær hafa fylgt foreldrunum allan seinni hluta meðgöngunnar og munu gera áfram í gegnum sængurleguna.

Útlit er fyrir að þrennar fæðingar til viðbótar verði í fæðingastofunni í maímánuði. „Og svo erum við komnar með konur á lista í allt sumar,“ bætir hún við.

Fæðingarstofa Bjarkarinnar. Áhersla er lögð á að hafa umhverfið sem …
Fæðingarstofa Bjarkarinnar. Áhersla er lögð á að hafa umhverfið sem heimilislegast. Ljósmynd/Björkin

Séu með ljósmæður sem þeir þekkja og treysta

Ein fæðingastofa er í húsakynnum Bjarkarinnar, en þjónustan er sambærileg þeirri sem þær bjóða í  heimafæðingu. „Við fylgjum foreldrum frá seinni hluta meðgöngu, í fæðingunni og í gegnum sængurleguna," segir hún. En ljósmæðrapar fylgir væntanlegum foreldrum í gegnum þetta ferli. „Þannig er það tryggt að foreldrar séu með ljósmæður sem að þeir þekkja og treysta,“ segir Hrafnhildur. „Við fæðinguna í nótt voru einmitt ljósmæður sem eru búnar að vera fylgja þessu pari.“

Þær Arney allt að tíu fæðingar á mánuði í fæðingastofu Bjarkarinnar til að byrja með.  

„Þetta er fyrir hraustar konur í eðlilegri meðgöngu,“ segir Hrafnhildur og kveður fæðingastofuna vera hannaða að norrænni fyrirmynd. „Í breskum leiðbeiningum um barneignarþjónustu, sem gjarnan er stuðst við á Íslandi, er mælt með að hraustar konur í eðlilegri fæðingu eigi börn sín utan hátæknisjúkrahúsa. Okkur fannst því löngu tímabært að þessi valkostur væri í boði hér á landi. Það hefur ekki verið til fæðingarheimili á Íslandi frá því 1996, þegar fæðingarheimilinu á Eiríksgötu var lokað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert