Sér hættumerki á húsnæðismarkaði

Skortur á lóðum hefur knúið íbúðaverð upp.
Skortur á lóðum hefur knúið íbúðaverð upp. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics, hvetur fólk sem íhugar kaup á fasteignum til að sýna varkárni.

Verð hafi hækkað mikið og fólk geti ekki lengur vænst verðhækkana til að auka eigið fé sitt í eignunum.

„Íbúðarverð er orðið hátt. Það er ekki lengur mögulegt að kaupa fasteignir til útleigu og vænta þess að það sé mikil verðhækkun í pípunum,“ segir Magnús Árni í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag og bætir við að lóðaskortur eigi þátt í hækkandi íbúðaverði.

Rúmlega 40% munaði á fermetraverði í dýrasta og ódýrasta hverfinu á höfuðborgarsvæðinu í fyrra.

Þetta kemur fram í greiningu Reykjavík Economics, Blikur á lofti á íbúðamarkaði: Framboðstregða á höfuðborgarsvæðinu ýtir undir bólumyndun, sem unnin var fyrir Íslandsbanka. Munurinn milli hverfa er sýndur á grafi hér til hliðar.

Hækkunin að síga fram úr kaupmætti

 Magnús segir aðspurður að ekki séu komin fram merki um bólumyndun á íbúðamarkaði. Hins vegar séu vísbendingar um að hækkun íbúðaverðs sé að síga fram úr kaupmætti, líkt og árið 2005.

Hafa beri í huga að nú séu raunvextir mun lægri. Ef þeir lækki frekar geti fasteignaverð hækkað meira.

Magnús Árni bendir á að frá mars 2016 til mars 2017 hafi raunverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 19% og um 20,9% að nafnvirði. Sérbýli hafi hækkað um 20,2% að nafnvirði en fjölbýli um 21,3%. Það sé ein mesta 12 mánaða hækkun sem um getur síðan breyting varð á húsnæðislánakerfinu haustið 2004. Jafnframt hafi húsnæðisverð hækkað að meðaltali um 52,1% að raungildi síðan vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu náði lágmarki í desember 2010.

Með þessa þróun í huga hvetur Magnús Árni fólk til varkárni í fasteignakaupum. Það geti ekki lengur reiknað með að íbúðaverð hækki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert