Bíður veðurgluggans til að komast á toppinn

Vilborg Arna klífur ísvegginn á leið sinni niður í grunnbúðirnar …
Vilborg Arna klífur ísvegginn á leið sinni niður í grunnbúðirnar á nýjan leik. Ljósmynd/Vilborg Arna

Vilborg Arna Gissurardóttir bíður þess enn að geta sætt færis að reyna að komast á topp Everest. „Það eru nokkrir dagar síðan ég kom niður úr aðlöguninni og ég er núna að bíða færis til að reyna við tindinn,“ segir Vilborg Arna í samtali við mbl.is, en hún gerir nú þriðju tilraun sína til að komast á tind þessa hæsta fjalls jarðar.

Vilborg Arna er búin að ganga upp í þriðju búðir, ásamt leiðsögumanni sínum sjerpanum Tenjee, og fara upp í 7.000 metra hæð til að aðlagast þunnu loftinu. Vont veður gerði þegar þau voru komin upp í búðir eitt og urðu þau því að bíða þar í tvær nætur og sæta færis að veður batnaði á ný.

Í færslu á Instagram minnist Vilborg Arna þess að hún hafi verið í þessum búðum fyrir tveimur árum, þegar gríðar­mik­ill jarðskjálfti upp á 7,8 stig varð í Nepal, sem kostaði þúsundir manna lífið.

Það var kalt þegar Vilborg Arna vaknaði í búðum eitt …
Það var kalt þegar Vilborg Arna vaknaði í búðum eitt og þá var gott að fá eitthvað heitt að drekka áður en haldið var upp í búðir tvö. Ljósmynd/Vilborg Arna

„Að þessu sinni var þetta ekki jafn skelfilegt og Tenjee og ég áttum góðan dag með mikilli tedrykkju,“ segir í fæslunni.

Verður pínu meyr

Spurð hvernig tilfinning það sé að vera reyna við fjallið í þriðja sinn eftir það sem á undan er gengið segir hún: „Maður verður alltaf auðvitað pínu meyr á ákveðnum stundum en það fylgir því að vera hér og að takast á við þessa áskorun.“

Ekki er enn ljóst hvenær hún muni reyna við topp Everest í þessari ferð. „Það á enn eftir að fixa línurnar upp á toppinn og því ekki hægt að gera neinar áætlanir enn,“ útskýrir hún.

„Þegar fjallið verður orðið klárt, þá byggist þetta á því að fá veðurglugga og að maður sé líkamlega klár, þannig að núna erum við að hvíla okkur fyrir lokaátökin.“  Þegar veður­glugg­inn opn­ast tek­ur fjóra daga að fara úr grunn­búðunum.

Vilborg Arna á göngu er stutt er eftir niður í …
Vilborg Arna á göngu er stutt er eftir niður í grunnbúðir. Hrikaleg fegurð fjallanna fer ekki framhjá neinum. Ljósmynd/Vilborg Arna

Vilborg Arna kveðst reyna að fara í gönguferðir og halda sér við og nota hugmyndafræðina „active rest“ eða virka hvíld á meðan hún bíður færis.

Kannast við marga frá fyrri ferðum

Aðstæður á fjallinu nú eru ágætar, að sögn Vilborgar Örnu. „En það á þó eftir að reyna á efsta hluta þess ennþá,“ bætir hún við. Washington Post greindi frá því í gær að mun fleiri væru að reyna að komast á tind Everest þetta árið en vanalega og hefðu nepölsk ferðamála­yf­ir­völd veitt 371 manns leyfi til að reyna við tind­inn í ár, sem er tæp­lega hundrað fleiri en í fyrra.

„Það voru gefin út fleiri leyfi en áður, sem stafar af því að þeir sem voru hér 2014 eða 2015 eru að nýta sín leyfi,“ útskýrir Vilborg Arna. „Þannig að þetta er mikið til fólk sem hefur verið áður og ég þekki t.d þó nokkra frá fyrri árum.“

Hún segir fjöldann þó dreifast ágætlega um svæðið og því sé ekki vandamál hversu margir séu á svæðinu. „En það getur þó vissulega orðið áhyggjuefni ef veðurglugginn verður knappur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert