Með tár í augum og þakklæti í huga

Veggjatítlur eru mun útbreiddari í húsum en almenningur gerir sér …
Veggjatítlur eru mun útbreiddari í húsum en almenningur gerir sér grein fyrir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hátt í ein milljón króna hefur safnast handa fjölskyldu sem sér fram á að missa aleiguna eftir að upp komst um veggjatítlu í gömlu húsi þeirra í Hafnarfirði.

„Við kíktum á þetta í gærkvöldi og sátum með tárin í augunum og þakklæti í huga,“ segir Ingvar Ari Arason, sem keypti húsið fyrir fimm árum ásamt eiginkonu sinni Önnu Gyðu Pétursdóttur.

„Það er ótrúlegasta fólk að styrkja okkur, fólk sem við höfum aldrei heyrt um áður, sem er algjörlega ómetanlegt. Við hefðum hoppað hæð okkar yfir 500 þúsund krónum, það hefði verið alveg æðislegt. Þetta er bara ótrúlegt, ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því öðruvísi,“ segir Ingvar Ari.

Engin úrræði standa til boða fyrir fjölskylduna en í næsta mánuði byrja hjónin að greiða leigu ofan á afborganirnar af íbúðarláninu. Bróðir Ingvars, Hilmar Snær Rúnarsson, hóf söfnunina ásamt eiginkonu sinni til að létta þeim byrðina, án þess að þau vissu af því.

„Æðislegt

Spurður hvaða þýðingu það hefur að fá þessa tæpu milljón sem hefur safnast segir Ingvar Ari að núna léttist greiðslubyrðin hjá þeim um tvo og hálfan mánuð en þau eru að borga hátt í 400 þúsund krónur í fastar greiðslur á mánuði, bæði vegna nýrrar leiguíbúðar og gamla hússins. „Þú getur rétt ímyndað þér hvað það er æðislegt. Þetta fækkar laugardagsvinnunni hjá mér. Þá getur maður notað tímann öðruvísi.“

Haraldur Líndal Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Haraldur Líndal Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Funduðu með bæjarstjóra Hafnarfjarðar

Ingvari Ari vonist til að það fari að birta til á næstunni. Þau hjónin eiga eftir að funda með lánastofnuninni þar sem þau tóku húsnæðislánið á sínum tíma og vonast eftir að hægt verður að komast að einhverju samkomulagi varðandi greiðslur.

Þau fóru á fund bæjarstjóra Hafnarfjarðar á föstudaginn og þar útskýrði hann fyrir þeim að allt í tengslum við málið þurfi að fara fyrir bæjarráð. Það kemur næst saman á fimmtudaginn í næstu viku. „Við vonum að bærinn geri eitthvað fyrir okkur til þess að létta á okkur.“

Ná að bjarga búslóðinni

Að sögn Ingvars er orðið ljóst að þau geta notað mesta hluta búslóðarinnar úr gamla húsinu áfram og segir hann það „þvílíkan létti“ en eftir hádegi í dag verður búslóðin fryst.

Það er nóg að gera hjá fjölskyldunni því auk allra vandamálanna vegna veggjatítlanna ætla þau að flytja í nýju leiguíbúðina seinni part vikunnar. Einnig voru þau að skíra yngri son sinn um helgina og fékk hann nafnið Jökull Nói.

„Það er enginn lognmolla hjá okkur. Það er gott að finna fyrir þessum samhug. Það styrkir mann rosalega mikið í að halda áfram og standa upp.“

Styrktarreikningurinn hefur reikningsnúmerið 0544-04-762504 og er stílaður á kennitölu Ingvars, 211077-4849.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert