„Skagaþrjóskan“ nýst vel um ævina

Bára Magnúsdóttir stofnaði danslistaskóla JSB fyrir 50 árum.
Bára Magnúsdóttir stofnaði danslistaskóla JSB fyrir 50 árum. mbl.is/Eggert

Það er óhætt að segja að Bára Magnúsdóttir djazzballettdansari hafi brotið blað í íslenskri danssögu þegar hún flutti aftur heim úr dansnámi í Englandi og stofnaði Jazzballettskóla JSB þar sem áhersla er lögð á nútímadans. Í þá daga þekktist varla nútímadans hér á landi og Bára mætti litlum skilningi en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Skólinn fagnar nú 50 ára starfsafmæli en Bára stofnaði hann árið 1967 með tvær hendur tómar þegar hún átti enn ár í tvítugt. Í dag eru nemendur danslistaskóla JSB orðnir nokkur hundruð talsins og kennarar við skólann eru 30 talsins og margir hverjir gamlir nemendur Báru. Þrátt fyrir að vera komin í nýtt húsnæði er enn þörf á stærra rými. 

Sex afmælissýningar voru settar upp nýverið þar sem þemað var festival eða afmæli. Fjölmargir hópar á öllum aldri létu ljós sitt skína. 

Bára við kennslu í Suðurveri um árið 1980.
Bára við kennslu í Suðurveri um árið 1980.

 Notar enn sömu kennitöluna

Tímamótin hafa verið nokkur í rekstrinum á þessum árum sem hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt. Bára hefur staðið ýmislegt af sér eins og hrunið og rekur skólann enn undir sömu kennitölunni. Skólinn byrjaði í kjallara í Suðurveri þar sem kennsla fór fram á máluðu steingólfi. Árið 1992 keypti Bára nýtt húsnæði í Lágmúla 9 og árið 2006 stækkaði starfsemin enn á ný og fluttist yfir í Lágmúla 7. Á sama tíma varð gamli Jazzballettskólinn að Danslistarskóla JSB og stofnuð var listdansbraut sem metin er til eininga í framhaldsskólanámi.

Frá árinu 2006 hafa útskrifast um 60 nemendur af danslistarskóla JSB. „Það var mikill sigur fyrir mig að fá þessa viðurkenningu á náminu og þar með á starfinu mínu,“ segir Bára Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri JSB. Hún bendir á að enn hafi hún ekki fengið svör frá menntamálaráðuneytinu hvort dansmámið fái styrk næsta skólaár. Á hverju ári eru um 130 nemendur á brautinni. „Þetta er óþægileg tilfinning því listnám er dýrt og ekki á færi foreldra að borga með því,“ segir Bára.

Afmælissýning JSB í apríl.
Afmælissýning JSB í apríl. Ljósmynd/Rán Bjargardóttir

„Mitt stærsta verk var að búa til jarðveg

Auk danslistaskólana er líkamsrækt JSB mjög vinsæl og fjölbreytt úrval af tímum sem byggja á skemmtilegum dansæfingum jazzballettsins sem Bára hefur hannað og þróað. „Mitt stærsta verk var að búa til jarðveg. Þá má aldrei missa úr ár og ekki einn einasta þráð. Ef ég hefði ekki haft líkamsræktina og hugkvæmst að vinna í henni samhliða hefði ég aldrei geta verið með dugandi listdansskóla,“ segir Bára.  

Bára á æfingu hjá dansflokki JSB og er greinilega að …
Bára á æfingu hjá dansflokki JSB og er greinilega að taka niður nótur fyrir dansinn.

Brekkurnar í lífi Báru hafa ekki allar verið undan fæti eins og gengur en Bára hefur ekki látið það koma sér úr jafnvægi enda jákvæð með eindæmum og með „Skagaþrjóskuna“ í arf eins og móðir hennar benti henni oft á. Bára ólst upp í stórum systkinahópi og á ættir að rekja til Akraness.

„Ég er ofboðslega þakklát. Ég hef alltaf mætt mikilli góðvild og fengið hjálp því maður gerir ekkert einn í lífinu. Það er mikil gæfa að fá að vinna að því sem ég brenn fyrir,“ segir Bára þegar hún lítur til baka. 

Árarnir úr sýningunni Jazz-Inn, sem var sýnd í Háskólabíó 1982. …
Árarnir úr sýningunni Jazz-Inn, sem var sýnd í Háskólabíó 1982. Þetta var stærsta verkefni flokksins og var allt frumsamið, tónlist, handritið og dansar.

Með „Skagaþrjóskuna“ að vopni

Þegar hún sneri heim úr námi við ART-listaskólann í London höfðu ekki margir trú á þessum nútímadansi, jazzballett. „Það var ekki litið á þetta sem atvinnugrein. Ég var úti í kuldanum. Það var erfitt að byrja og ég var ein í þessu. Ég þurfti að bretta upp ermarnar og sýna fram á að þetta var alvöru atvinnugrein og ekkert bull. Það hljóp í mig þrjóska, Skagaþrjóskan. Mér fannst ég einhvern veginn þurfa að gera þetta. Kannski herti þetta mig í að gera vel,“ segir Bára hlæjandi.

Hún segist í raun aldrei hafa verið staðráðin í að stofna skóla en hlutirnir hafi æxlast í þessa átt. „Enginn dansari vill verða kennari,“ segir Bára og kímir. Hún segir að flestir dansarar stefni að því að skapa sér nafn á alþjóðlegum vettvangi og sjálf viðurkenndi hún það ekki fyrr en eftir mörg ár að hún væri kennari. „Ég var bara með námskeið að kynna þetta.“  

Það er hægt að staldra við margt forvitnilegt á ferli Báru en það má segja að á áttunda áratug síðustu aldar hafi Bára notið sviðsljóssins. Á þeim tíma var hún með dansflokk og setti upp fjölmargar djassballettsýningar á Hótel Sögu sem voru mjög vinsælar. 

Afmælissýning JSB.
Afmælissýning JSB. Ljósmynd/Rán Bjargardóttir

Nemendur læra að treysta á sjálfa sig

Listnám er nauðsynlegt fyrir alla, hvort sem fólk gerir listgreinina að ævistarfi sínu eða ekki, að sögn Báru. „Það er hollt fyrir alla að læra eitthvert listrænt nám. Það er svo gaman að læra að búa eitthvað til úr engu með huganum. Þú lærir að það sem var ekki til í dag gæti orðið til á morgun af því að þú býrð það til. Nemendur læra að treysta á sjálfa sig með því að koma fram og sýna að þeir hafi eitthvað fram að færa. Það skilar sér í manneskjunni sjálfri út í lífið og það verður skemmtilegt og opið,“ segir Bára glaðlega.

Í þessu samhengi bendir hún á mikilvægi þess að bjóða upp á framboð af slíku námi á Íslandi. „Ef það á að vera menning og skóli og eitthvað sem vex úr grasrótinni verður það að vera íslenskt. Við getum ekki endalaust litið til erlendra danshöfunda og kennara, þá erum við að fá eitthvað að láni. Það er ekki íslensk list. Hún verður að vaxa frá eigin brjósti og eigin grunni,“ segir Bára að það verði að vera jafnvægi á milli þessara hluta. Það megi ekki skilja af orðum hennar að hún sé á móti erlendum danshöfundum eða kennurum, þvert á móti, því hún hafi í gegnum tíðina fengið færustu kennara til liðs við sig.

Afmælissýning JSB.
Afmælissýning JSB. Ljósmynd/Rán Bjargardóttir

Vill danshöll 

Þegar talið berst að áherslum á aðstöðu fyrir iðkendur og ólíkar þarfir kynjanna bendir Bára á að í stórum íþróttamannvirkjum sem eru í eigu þjóðarinnar eru drengir og karlmenn í meirihluta þeirra sem nota húsnæðið. „Það vantar vettvang fyrir kvenfólkið, með aðstöðu og þjónustu sem hentar þeirra þörfum og óskum,“ segir Bára og spyr hvenær viðlíka mannvirki verði byggt yfir dansinn. Þrátt fyrir gott húsnæði er talsverður biðlisti. 

JSB-dansflokkurinn á Hótel Sögu 1983.
JSB-dansflokkurinn á Hótel Sögu 1983.

Ekki hægt að hefta list“

Vægast sagt hefur margt breyst frá því Bára flutti aftur heim á sjöunda áratugnum, nýútskrifuð og með þrautseigjuna að vopni, staðráðin í að sýna fram á að dans gæti verið atvinnugrein hér á landi. „Nú eigum við listaháskóla og unga fólkið gengur um borgina og er stolt af því að vera dansari, listamaður eða danshöfundur. Það er gaman að heyra þessi orð notuð í dag því þau voru langt í frá að vera ofnotuð. Það er miklu meira frelsi í dag. Það er ekki hægt að hefta list,“ segir Bára og bætir við að hún hafi fulla trú á því að Íslendingar eigi eftir að eignast heimfræga danshöfunda því við erum svo „mikil skáld“.

Sýningin Evita sem var sýnd fyrir fullu húsi í margar …
Sýningin Evita sem var sýnd fyrir fullu húsi í margar vikur.
Sýningin Flashdance var íslensk útgáfa af samnefndri kvikmynd sem dansflokkur …
Sýningin Flashdance var íslensk útgáfa af samnefndri kvikmynd sem dansflokkur JSB sýndi fyrir fullu húsi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert