„Við viljum ekki okra“

Náttúran blasir við úr herbergjum Midgard.
Náttúran blasir við úr herbergjum Midgard. Ljósmyndari/Benjamin Hardman

„Við erum búin að tengja bjórdæluna,“ segir Arnar Gauti Markússon, einn eigenda ferðaþjónustufyrirtækisins Midgard á Hvolsvelli. Fyrirtækið hefur að undanförnu byggt upp höfuðstöðvar fyrirtækisins sem voru opnaðar nýverið. Í þeim er gistiaðstaða, bar, verslun og veitingastaður sem verður opnaður að fullu í lok maí.

Formlegt opnunarpartí verður næsta laugardag, 13. maí, milli 16 og 18 og allir eru velkomnir. Eftir formlegt partí verður slegið upp stóru tjaldi fyrir Eurovision. 

Fyrstu gestirnir hafa þegar tekið forskot á sæluna og gistu í Midgard í mars. Um 50 rúm eru þar en auk herbergja með kojum eru nokkur einkaherbergi sem eru meðal annars tilvalin fyrir fjölskyldur. Á svölunum á annarri hæð verður heitur pottur og sána, en þaðan er útsýni á Eyjafjallajökul og yfir Fljótshlíðina. 

Höfuðstöðvar Midgard eru í gömlu iðnaðarhúsnæði sem byggt hefur verið við. Húsið var byggt fyrir 40-50 árum sem steypustöð. Það er kennt við verktakafyrirtækið Suðurverk, sem lengi átti það. Húsið var í niðurníðslu þegar eigendur Midgard Adventure keyptu það af N1. Það hefur mest verið notað sem geymsla og verkstæði. 

Arnar Gauti Markússon, einn eigenda Midgard Adventure.
Arnar Gauti Markússon, einn eigenda Midgard Adventure. Ljósmynd/úr einkasafni

Vill ekki tvöfalt hagkerfi 

Á veitingastaðnum, sem tekur 70 manns í sæti, verður á boðstólum ferskt og gott íslenskt hráefni með alþjóðlegu ívafi. Stór hluti matreiðslunnar verður vegan og „vegetarian friendly“. „Við ákváðum snemma að bjóða ekki upp á pitsur og hamborgara því nægt úrval er þegar af því í vegasjoppum á suðurströndinni. Stór hluti af því að ferðast felst í því að kynnast matarhefðinni,“ segir Arnar Gauti.  

Unnið er að því að opna veitingastaðinn að fullu og reiknað er með að hann verði tilbúinn í lok maí. Aftur á móti hefur þegar verið opnað fyrir morgunverðar- og hádegishlaðborð alla daga og barinn er opinn til kl. 23. „Við viljum líka fá Íslendinga til okkar og skapa stemningu þar sem fólk getur sest niður og slakað á,“ segir hann. Í því samhengi tekur hann fram að verðlaginu verði stillt í hóf. „Við viljum ekki okra. Íslendingar eru næmir á verð og hafa skoðanir á því hvað hlutirnir eiga að kosta. Við viljum stuðla að því að það sé ekki tvöfalt hagkerfi í gangi, eitt verð fyrir Íslendinga og annað fyrir ferðamenn,“ segir Arnar Gauti.  

Húsakynnin eru orðin nokkuð flott.
Húsakynnin eru orðin nokkuð flott. Ljósmynd/Benjamin Hardman

Öflug upplýsingamiðstöð

Upplýsingamiðstöð verður einnig starfrækt í Midgard. Hann bendir á að það sé mjög mikilvægt að ferðamenn fái ávallt réttar og nákvæmar upplýsingar þegar þeir ferðast, til dæmis um færð og veður á þeim stöðum sem þeir hyggjast heimsækja.

„Það hefur aðeins borið á því að fólk hafi kennt upplýsingagjöfinni um ef það lendir í ógöngum. Það er fjölbreyttur hópur sem gefur upplýsingar en það þarf fleiri öflugar upplýsingamiðstöðvar sem deilir þeim til þeirra,” segir Arnar Gauti. 

Midgard býður upp á fjölbreyttar ævintýraferðir.
Midgard býður upp á fjölbreyttar ævintýraferðir.

Gistiaðstaðan prufukeyrð í mars

Bandarískir nemendur sem taka þátt í GREEN Program í samstarfi við Háskóla Reykjavíkur, þar með talið Icelandic School of energy prufukeyrðu gistiaðstöðuna í mars. Midgard hefur verið í samstarfi við HR síðustu ár og tekið á móti um 500 nemendum á hverju ári og farið með hópinn meðal annars í ísgöngu, gönguferðir um Þórsmörk svo fátt eitt sé nefnt.

Í þessu samhengi bendir Arnar Gauti á að fyrirtækið leggi sig fram um að fara helst ekki á fjölsóttustu ferðamannastaðina eða að minnsta kosti að staldra þar stutt við. „Við viljum reyna að dreifa álaginu sem mest um landið,“ segir hann.

Pláss er fyrir 50 manns í gistiaðstöðunni.
Pláss er fyrir 50 manns í gistiaðstöðunni. Ljósmynd/Benjamin Hardman

Flestir ferðamenn frá Bandaríkjunum

Nemendahópurinn er einn lítill hluti af þeim hópi ferðamanna sem Midgard tekur á móti. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í hinum ýmsu ævintýraferðum og eru einkajeppaferðir mjög vinsælar. Flestir ferðamennirnir eru frá Bandaríkjunum. „Þeir eru mikilvægasti kúnnahópurinn okkar. Þeir eru líka ánægðir og það kemur vel fram í ánægjuvoginni [sem mælir ánægju ferðamanna],“ segir Arnar Gauti.

Undanfarið hefur borið á því að færri Bretar hafi bókað ferðir hjá fyrirtækinu og inn í það spilar líklega Brexit og styrking krónunnar, að sögn Arnars Gauta. Síðustu ár hefur fyrirtækið vaxið jafnt og þétt. 20 til 22 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu. Flestir eru af svæðinu en margir hafa flutt aftur á heimaslóðir til að starfa hjá Midgard. „Við metum það mikils og það er skemmtilegt hvernig þetta hefur þróast,“ segir hann. Fyrirtækið er að stórum hluta fjölskyldufyrirtæki.

Hér er vefsíða Midgard Adventure  og hér er Facebook-síða fyrirtækisins.  

Gott úrval verður af vegan- og vegan friendly-mat á matseðlinum …
Gott úrval verður af vegan- og vegan friendly-mat á matseðlinum á veitingastaðnum. Ljósmynd/Karl Petersson
Höfuðstöðvar ferðaþjónustufyrirtækisins Midgard Adventure eru á Dufþaksbraut á Hvolsvelli. Mynd …
Höfuðstöðvar ferðaþjónustufyrirtækisins Midgard Adventure eru á Dufþaksbraut á Hvolsvelli. Mynd tekin í janúar 2017. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert