Framtíð HB Granda á Akranesi að skýrast?

Forstjóri HB Granda, Vilhjálmur Vilhjálmsson, óskaði í dag eftir fundi með Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness, og fór fundurinn fram klukkan 14:15. Fundað verður með starfsmönnum fyrirtækisins á Akranesi klukkan 15:00.

Þetta kemur fram á vefsíðu Verkalýðsfélags Akraness. Þar segir að formaður félagsins hafi ekki vitað fyrir fundinn með forstjóra HB Granda hvert fundarefnið yrði nákvæmlega en óskað var eftir fundinum með skömmum fyrirvara. Fyrirtækið tilkynnti fyrr á árinu um áform um að hætta botnfiskvinnslu sinni á Akranesi sem kostar 93 störf.

Þessum áformum var mótmælt harðlega, meðal annars af Verkalýðsfélagi Akraness, og í kjölfar þess hófust viðræður á milli HB Granda og Akraneskaupstaðar um mögulega uppbyggingu hafnarmannvirkja í bænum til þess að gera fyrirtækinu betur kleift að halda starfsemi sinni þar áfram.

Fram kemur í fréttinni á vef félagsins, sem rituð var fyrir fundinn með forsvarsmönnum HB Granda, að vonandi yrði efni hans jákvætt fyrir umrædda starfsmenn fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert