Ekki boðlegt að nota Baldur

Ferjan Baldur á siglingu.
Ferjan Baldur á siglingu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Veðrið á landinu hefur sett strik í reikninginn hjá landsmönnum og haft áhrif á samgöngur. Farþegaferjan Baldur þurfti að snúa við í ólgusjó á leið til Landeyjarhafnar eftir að hafa siglt í rúman hálftíma. Herjólfur er í slipp og því hefur Baldur siglt á milli Eyja og Landeyjahafnar undanfarið. 

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir ekki boðlegt að Baldur sé notaður til að sigla milli lands og Eyja. Farþegaferjan sé með því „lakasta“ og auk þess hafi hún ekki „haffæri til að sigla til Þorlákshafnar.“ Þessi staða er ekki ásættanlegt, að mati Elliða. 

Um helgina eru fermingar á dagskrá í Vestmannaeyjum og áttu einhverjir veislugestir miða með Herjólfi í dag. Hins vegar er gert ráð fyrir siglingum á morgun laugardag 13 maí samkvæmt áætlun, að því er fram kemur á vef Eimskipa

Vindinn lægir og engin útköll

Vindinn lægir núna á Suður- og suðausturlandi og var vegurinn um Öræfi opnaður fyrr í kvöld. Veðrið skánar smám saman í nótt og í fyrramálið. Áfram verður þó strekkings austanátt, að sögn Teits Arasonar veðurfræðings.   

Stórhríðin sem er nú á Austurlandi breytist í rigningu sennilega í nótt og búast má við miklum vatnavöxtum. Líkur eru á aurskriðum því á morgun og fram á sunnudag verður mikil rigning fyrir austan. 

„Sama vindáttin helst og hvert úrkomubeltið á fætur öðru kemur á færibandi þegar skil fara yfir landið en það hlýnar í veðri,“ segir Teitur og bætir við: „Úrkoman er með því allra mesta, sérstaklega á þessum árstíma.“ 

Þrátt fyrir hvassviðrið hefur Björgunarsveitin Landsbjörg ekki farið í nein útköll í dag, að sögn Þorsteins Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. 

Mynd úr safni, Herjólfur við Vestmannaeyjar
Mynd úr safni, Herjólfur við Vestmannaeyjar mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert