Starfsfólk HB Granda „sárt og dasað“

Konur við fiskvinnslu hjá HB Granda.
Konur við fiskvinnslu hjá HB Granda. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Skúlína Hlíf Guðmundsdóttir, trúnaðarmaður starfsmanna hjá HB Granda á Akranesi, segir að flestir starfsmenn séu sárir yfir þeim uppsögnum sem eru yfirvofandi. „Fólkið er hálfdasað enn þá. Það er rosalega erfitt að vera í vinnunni, þannig séð, en þetta er frábært fólk og við reynum að létta okkur lundina,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Spennufall hjá starfsmönnum

Skúlína Sif segir að síðan í mars hafi flestir verið búnir að gera sér grein fyrir því í hvað stefndi. „Þá kom hálfgert sjokk en samt hafði maður alltaf smá von um að það kæmi kannski eitthvað annað. En svo vorum við, alla vega ég, fegin að þetta er komið á hreint. Þá er þetta bara búið,“ bætir hún við og segir að spennufall hafi orðið hjá starfsmönnum eftir að greint var frá því í gær að 86 starfsmönnum HB Granda á Akranesi verði sagt upp um næstu mánaðamót.

HB Grandi á Akranesi.
HB Grandi á Akranesi.

Óljóst hve mörg störf verða í boði

Að sögn forsvarsmanna HB Granda verður starfsfólkinu boðið að sækja um önnur störf hjá fyrirtækinu og dótturfélögum þess í Reykjavík og á Akranesi. Því starfsfólki sem fær ekki vinnu við hæfi mun bjóðast aðstoð við atvinnuleit á vegum HB Granda.

Skúlína Hlíf segir að aðallega sé um að ræða störf í Reykjavík. Einhver störf á Akranesi verða einnig í boði hjá Vigni G. Jónssyni, dótturfyrirtæki HB Granda, við hrognavinnslu og hjá öðru dótturfyrirtæki, Norðanfiski, en það fyrirtæki sérhæfir sig í áframvinnslu sjávarafurða í stóreldhús- og neytendapakkningar. Starfsmönnum hefur ekki staðið til boða að sækja um störf hjá HB Granda á Vopnafirði.

Að sögn Skúlínu hefur fyrirtækið ekki greint frá því hversu mörg störf verða í boði. Hún segir að fyrirtækið sé að vinna í málunum og nefnir að fundur verði haldinn með starfsmönnum öðru hvoru megin við næstu mánaðamót.

Ákveða sig eftir uppsagnarbréfið

Hún segir að flestir starfsmenn séu að jafna sig á áfallinu og býst hún við því að fólk ákveði sig með framhaldið eftir að uppsagnarbréfið berst um næstu mánaðamót. Fólk hefur rétt á að vinna til 1. september og á einnig sumarfrí inni.

Sjö starfsmenn þegar hættir 

Síðan fyrstu fregnir bárust af uppsögnum í HB Granda í lok mars hafa sjö manns nú þegar sagt upp hjá fyrirtækinu að sögn Skúlínu og hafið störf annars staðar. Einhverjir starfsmenn til viðbótar hafa sótt um ný störf. „Ég veit að konur hafa sótt um og fengið störf inni í Norðuráli og hjá Elkem [á Grundartanga] og einnig í smærri fyrirtækjum á Skaganum,“ greinir hún frá. Sumir munu hætta um næstu mánaðamót til að byrja í sumarafleysingum annars staðar.

HB Grandi.
HB Grandi.

Erfitt að þurfa að fara

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði í samtali við mbl.is í gær að það gæti reynst vandkvæðum bundið fyrir starfsmenn að sækja störf hjá HB Granda í Reykjavík. Skúlína Hlíf er sammála því. Margar konur séu með börn á leikskóla- og skólaaldri og tveggja klukkutíma ferðalag fram og til baka suður til Reykjavíkur hjálpi ekki til. „Þetta verður mjög erfitt fyrir marga að þurfa að fara. Margar konur eru með smábörn og þetta verður erfitt fyrir þær,“ segir hún en aðspurð telur hún að hlutfall kvenna sem hafa starfað við botnfiskvinnsluna á Akranesi sé 80 til 85%.

Sjálf hefur Skúlína ekki ákveðið hvað tekur við hjá sér. Hún ætlar að vinna hjá HB Granda til 1. september og athuga svo með framhaldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert