„Þar stóðum við og börðum eldinn“

Eldurinn fór nálægt ræktunarstöðinni Lágafelli.
Eldurinn fór nálægt ræktunarstöðinni Lágafelli. mbl.is/Gunnlaugur Árnason

Eldtungurnar stóðu hátt upp í loftið á tímabili og stórt svæði er nú brunnið eftir mikinn sinueld sem kviknaði við Vegamót á Snæfellsnesi síðdegis í gær. Eldurinn fór nærri ræktunarstöðinni Lágafelli og kann Áslaug Sigvaldadóttir, sem rekur ræktunarstöðina ásamt manni sínum Þórði I. Runólfssyni, slökkviliðsmönnum og bændum af næstu bæjum bestu þakkir fyrir skjót viðbrögð.

„Eldurinn fór frekar nálægt okkur,“ segir hún. Nokkurs konar mön er í kringum húsin að Lágafelli og möl og segir Áslaug eldinn því helst hafa getað komist að húsunum á einum stað. „Þannig að þar stóðum við og börðum eldinn til að fá hann ekki nær okkur.“ Þau Áslaug og Þórður nutu aðstoðar nágranna við verkið.  „Það stóðu allir sem gátu og lömdu,“ bætir hún við.

Húsráðendur, bændur og aðrir sem vettlingi gátu valdið stóðu úti …
Húsráðendur, bændur og aðrir sem vettlingi gátu valdið stóðu úti og börðu eldana til að halda þeim frá húsum. Ljósmynd/Sumarliði Ásgeirsson

Sinueldurinn fór nálægt gróðurhúsinu, en mönin hindraði hann þó í að komast inn í húsið. Hún segir þó lykt í gróðurhúsinu eftir brunann, en brunalyktin setjist þó sem betur fer ekki í plönturnar. „Við erum samt búin að hafa opið í alla nótt til að fá ferskt loft inn.“

Vonar að sumarhúsin hafi sloppið

Töluvert stórt svæði varð eldinum að bráð og segir Áslaug nú svart um að lítast. „Eldurinn hefur farið töluvert upp í Flóa,“ segir hún. „Þetta byrjar, að því er manni sýnist, við þjóðveginn og svo breiðist þetta hratt þvert yfir Flóann og fer svo bæði í norður og suður.“ Eldurinn fór enda hratt yfir í rokinu í gær og segir Áslaug eldtungurnar hafa staðið hátt upp í loftið á tímabili. „Maður var eiginlega hissa á því hvað það logaði glatt.“

Stórt svæði brann í sinubrunanum á Snæfellsnesi.
Stórt svæði brann í sinubrunanum á Snæfellsnesi. Ljósmynd/Stefán Eggert

Hún vonar að öll hús á svæðinu hafi sloppið við reykjaskemmdir. „Það eru sumarhús við endann þar sem reykjarslæðan lá yfir mestallan tímann. Ég hef ekki heyrt í þeim og veit því ekki hvort það fór reykur þar inn.“

Munaði um haugsugurnar

Slökkvilið frá Borgarnesi, Reykholti, Stykkishólmi, Grundarfirði, Ólafsfirði og í sveitinni tók þátt í því að ráða niðurlögum sinubrunans, sem og bændur úr sveitinni sem mættu með haugsugur sínar og beittu gegn eldinum. Áslaug segir hafa munað mikið um þá viðbót. „Þeir geta keyrt utan vega og það kom sér vel.“

Hún er slökkviliðsmönnum líka þakklát fyrir skjót viðbrögð. „Þeir sýndu það í gær að þetta er frábært lið,“ segir Áslaug og bendir á að flestir séu slökkviliðsmennirnir í fullri vinnu annars staðar.

Talið er að eldurinn hafi byrjað við veginn og svo …
Talið er að eldurinn hafi byrjað við veginn og svo breiðst hratt út þvert yfir Flóann. Ljósmynd/Sumarliði Ásgeirsson

Ástæða sé þó til að vekja athygli á því fyrirkomulagi að fyrst sé haft samband við slökkviliðið í Borgarnesi, þar sem Vegamót teljist til þess svæðis, jafnvel þótt það taki slökkviliðið í Stykkishólmi mun skemmri tíma að mæta á staðinn.

„Það er góð samvinna þarna á milli, en hún má þó vera enn betri,“ segir Áslaug. „Við erum líka búin að vera að hvetja þá í hreppsnefndinni til að líta í kringum sig og fá sveitarfélögin í nágrenninu til að kaupa eins og einn tankbíl til að hafa hér á svæðinu.“

Hún rifjar upp að stórir brunar hafi orðið á svæðinu undanfarin ár og minnir á elds­voða í hausaþurrk­un á bæn­um Miðhrauni í Eyja- og Mikla­holts­hreppi á sunn­an­verðu Snæ­fellsnesi í nóvember á síðasta ári. „Nú fjölgar fólki í ferðaþjónustu og byggð þéttist og við værum virkilega til í að hafa tankbíl hérna sunnan megin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert