Fer til fjandans ef það blæs

Frá Garðabæ.
Frá Garðabæ. mbl.is/Rax

„Þetta eru einhver mistök sem þarna hafa orðið,“ segir Diðrik Ísleifsson í samtali við mbl.is. Verktakar hófust handa við að rífa af þak á röngu húsi í Garðabæ í gær en sonardóttir Diðriks býr í húsinu þar sem járnið var óvart rifið af þakinu.

Visir.is greindi frá málinu en þar kemur fram að verktakar hafi verið hálfnaðir með verkið þegar upp komst um mistökin. Nú er eingöngu pappi á húsinu og einhvern tíma taki að laga þakið en byrjað verði á því í næstu viku.

Diðrik segir að þetta dugi ekki lengi svona. „Pappinn heldur vatni, svo lengi sem gerir ekki mikið rok eða eitthvað slíkt,“ segir hann og tekur undir með blaðmanni að það væri því verra ef það yrði mikil rigning og rok. „Þá getur allt farið til fjandans. Eins og þetta er núna er þetta svo sem allt í lagi á þessum árstíma. Við höfum ekki bara pappa yfir veturinn.“

Diðrik, sem sjálfur er smiður, segir verktakanum hafa brugðið þegar hann áttaði sig á mistökunum. „Þetta var áfall fyrir hann, geri ég ráð fyrir. Hann hringdi í mig þegar hann var búinn að átta sig á því hvað hafði gerst og þannig stendur málið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert