Háskólarnir eru það mikilvægasta

Vigdís Finnbogadóttir .
Vigdís Finnbogadóttir . Ljósmynd Stella Andrea

„Háskólarnir eru það mikilvægasta í heiminum – það mikilvægasta til að varðveita mannkynið,“ sagði Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, á opnum málfundi um framtíðarsýn háskólastigsins á Kex Hostel í fyrrakvöld.  

Að fundinum stóðu ungliðahreyfingar Framsóknarflokksins, Pírata, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Vinstri grænna og ungliðar innan Bjartrar framtíðar. Fulltrúar stúdenta, háskólanna, atvinnulífsins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar tóku þátt í fundinum sem haldinn var undir yfirskriftinni: Uppþornun viskubrunnsins: Hvar endar fjársvelti háskólanna?

<a href="http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/05/12/harma_fjarsvelti_haskola/" target="_blank">Frétt mbl.is: Harma fjársvelti háskólanna</a>

„Ég stend hér sem einarður stuðningsmaður háskólamenntunar í heiminum og þá ekki síst háskólamenntunar á Íslandi. Ég tel að framtíð þessarar þjóðar byggist á þekkingu og kunnáttu á öllum sviðum. Það er aðalsmerki þjóða sem vilja eiga sér gott orðspor og láta taka mark á sér að eiga öfluga háskóla og þegna sem geta miðlað þekkingu til framfara, ekki aðeins á heimaslóðum heldur einnig á alþjóðavettvangi,“ sagði Vigdís. Í því sambandi benti Vigdís á að Sameinuðu þjóðirnar hefðu komið auga á þekkingu okkar Íslendinga á landgræðslu og á nýtingu jarðhita og þeirri þekkingu hefðum við miðlað til annarra þjóða fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna. 

<strong>Á annarri leið en nágrannalöndin</strong>

Fram kom á fundinum að fyrir lægi að háskólastigið á Íslandi hefðu sætt verulegum niðurskurði opinberra framlaga í tæpan áratug og enn væri töluvert í land til þess að framlög næðu meðatali OECD-ríkjanna og væru órafjarri að vera í samræmi við fjárhagslegt umhverfi sem skólar í nágrannaríkjum okkar byggju við. 

Einnig kom fram að óumdeilt væri meðal framsýnna vestrænna ríkja að opinber fjárfesting í menntun, rannsóknum og nýsköpun hefði bein áhrif á framleiðni, hagvöxt og myndun nýrra starfa.

„Þetta var góður fundur og umræður fjörugar,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, en hann flutti einnig ávarp á fundinum, á vef HÍ.

Rektor Háskólans sagði að það væri ekki ný saga að Háskóli Íslands væri undirfjármagnaður. „Árið 2005 gerði Ríkisendurskoðun úttekt á Háskóla Íslands og komst að þessari niðurstöðu  að skólinn væri hálfdrættingur í fjárframlögum á við Háskólann í Björgvin. Árið 2015 var staða Háskóla Íslands og Háskólans í Björgvin aftur borin saman. Skólarnir eru á svipuðum stað í röðun Times Higher Education World University Rankings en Háskóli Íslands fékk árið 2015 aðeins þriðjung af þeim fjárframlögum sem Háskólinn í Björgvin fékk. Bilið hafði því breikkað verulega á þeim tíma sem liðið hafði þó svo að Háskóli Íslands hafi verið verulega undirfjármagnaður árið 2005. Við erum á annarri leið en nágrannalöndin og þessari þróun þarf að snúa við.“

Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar og fulltrúi í Vísinda- og tækniráði, tók þátt í pallborðsumræðum á fundinum. Hún sagði að skýrt hefði komið fram í máli unga fólksins að áhyggjurnar væru miklar af núverandi ástandi þar sem undirfjármögnun á háskólunum hefði staðið afar lengi og ekkert útlit væri fyrir að það myndi breytast. „Það stefnir framtíð unga fólksins í hættu og gerir Ísland ekki að fýsilegum kosti fyrir ungt fólk,“ sagði Steinunn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert