Kaup á skattagögnum þegar borgað sig

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri. Kaup embættisins á skattagögnum erlendis frá um …
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri. Kaup embættisins á skattagögnum erlendis frá um eignir Íslendinga erlendis hafa þegar borgað sig og munu upphæðirnar hækka mikið á komandi mánuðum. mbl.is/Árni Sæberg

Kaup skattrannsóknarstjóra á gögnum um eignir Íslendinga í skattaskjólum hafa þegar borgað sig upp þrátt fyrir að ekki liggi enn fyrir niðurstaða í málum sem hefur verið vísað til héraðssaksóknara eða málum sem hefur verið vísað til yfirskattanefndar til kröfugerðar um sekt. Eftir að vinna við þennan málaflokk hófst bárust sex skattaerindi til ríkisskattstjóra þar sem óskað var eftir endurupptöku áður innsendra skattaframtala og nemur hækkun skatts vegna þess rúmlega 58 milljónum, en gögnin kostuðu 37 milljónir á sínum tíma. Þetta kemur meðal annars fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna.

Í svari ráðherra segir að samkvæmt upplýsingum frá skattrannsóknarstjóra hafi 349 einstaklingar með íslenska kennitölu komið fram í gögnunum og 61 félag.

34 mál tekin til formlegar rannsóknar

Alls 34 mál hafa verið tekin til formlegrar rannsóknar hjá embættinu vegna gruns um skattalagabrot sem tengjast Panamagögnunum. Af þeim voru 27 tekin til rannsóknar eftir að embættið festi kaup á gögnunum. Við rannsóknir skattrannsóknarstjóra á þessum málum hefur vaknað grunur um skattalagabrot í sex öðrum málum.

Rannsókn er lokið í þremur málum og hefur tveimur þeirra verið vísað til héraðssaksóknara en ákvörðun hefur verið tekin um að gera kröfu um sekt hjá yfirskattanefnd í þriðja málinu. Rannsóknir í sjö málum eru á lokastigi. Rannsókn átta mála hefur verið felld niður, m.a. vegna þess að grunur hefur ekki reynst á rökum reistur eða ekki hefur reynst unnt að upplýsa mál með fullnægjandi hætti.

Í svari Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra kemur fram að upphæðirnar geti …
Í svari Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra kemur fram að upphæðirnar geti þrefaldast á næstu mánuðum. mbl.is/Eggert

Samkvæmt svari ráðherra nemur endurálagning opinberra gjalda á grundvelli keyptu gagnanna tæplega 82 milljónum, en að baki þeirri fjárhæð eru aðeins fjórir einstaklingar. Þar af nam auðlegðarskattur 81 milljón og tekjuskattur einni milljón. Í öðrum málum hefur endurálagning ekki átt sér stað þar sem málin eru ekki full rannsökuð.

Upphæðirnar gætu þrefaldast á næstu mánuðum

Þá kemur fram í svarinu að sjö mál séu á lokastigi og rannsóknir í 16 málum enn í gangi. Útilokað sé að segja með nákvæmni hversu háar fjárhæðir sé um að ræða í þeim málum, en í einstökum málum sem eru til meðferðar nema undandregnir skattstofnar allt að nokkrum hundruðum milljóna króna. Þá er fyrirséð að fleiri mál verði tekin til rannsóknar á næstu mánuðum, þar sem grunur liggur nú fyrir um skattalagabrot, en rannsókn er ekki formlega hafin. 
Þá er í gangi úrvinnsla á fjölmörgum málum og á grundvelli þeirra sem eru langt komin má áætla að fjárhæðir gjalda vegna þessa málaflokks geti þrefaldast á næstu mánuðum frá því sem áður var nefnt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert