Valdefling kvenna í Tansaníu

Stoltir nemendur Women Power Africa við útskrift í Bashay í …
Stoltir nemendur Women Power Africa við útskrift í Bashay í Tansaníu í febrúar. Ljósmynd/Magnús Árni Skjöld Magnússon

Mikilvægt er að halda áfram með þróunaraðstoð við konur, því hún skilar sér betur til barna og fjölskyldna og skilar þjóðfélaginu sterkari innviðum en þróunarsamvinna um verkefni sem miða fyrst og fremst að störfum fyrir karla.

Háskólinn á Bifröst hefur haldið úti verkefninu Women Power Africa í þorpinu Bashay í Tansaníu frá því árið 2015, en verkefnið byggist á hugmyndafræði námskeiðsins Máttur kvenna, sem rekið hefur verið á Bifröst fyrir konur á Íslandi frá árinu 2004.

„Máttur kvenna er 11 vikna viðskiptanám fyrir konur í þjónustu og viðskiptum sem hundruð kvenna, mestmegnis af landsbyggðinni hér heima, hafa sótt. Konur sjá gjarnan um ýmiss konar rekstur og þjónustu án þess að hafa endilega formlega viðskiptamenntun. Verkefnið Máttur kvenna var sett á fót með styrk frá Iðnaðarráðuneytinu á sínum tíma til þess að mæta þörfum þessara kvenna,“ segir Magnús Árni Skjöld Magnússon, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, en hann fór ásamt fleirum til Tansaníu fyrr á þessu ári til að kenna og fylgja eftir verkefninu Women Power Africa.

Að koma til móts við konur

Magnús segir markmið verkefnisins í Tansaníu vera að koma til móts við konur þar í landi og valdefla þær líkt og hugsunin var með Mætti kvenna á Íslandi. Magnús segir hugmyndina hafa kviknað þegar hann var að kenna þróunarhagfræði á sumarönn á Bifröst árið 2014.

Starfsmaðurinn Restituta Surumbu og Kristrún Pétursdóttir sjálfboðaliði.
Starfsmaðurinn Restituta Surumbu og Kristrún Pétursdóttir sjálfboðaliði.


„Anna Elísabet Ólafsdóttir, þáverandi aðstoðarrektor á Bifröst kom í heimsókn í námskeiðið og sagði okkur frá þörf kvenna í Tansaníu fyrir menntun á sviði viðskipta. Anna Elísabet þekkir þessi mál vel, en hún á búgarð í Tansaníu ásamt eiginmanni sínum Viðari Viðarssyni. Í framhaldinu kviknaði hugmyndin að því að heimfæra Mátt kvenna á aðstæður í Tansaníu.“

Magnús segir að ákveðið hafi verið að setja meiri frumkvöðlaáherslu í verkefnið í Tansaníu en raunin er í Mætti kvenna á Íslandi. Hann segir framlag Háskólans á Bifröst vera í formi vinnuframlags starfsmanna en fjármögnunin hefur komið frá ýmsum fyrirtækjum og einstaklingum á Íslandi í formi styrkja.

Tölvur og þjálfun frá Íslandi

„Einn starfsmaður er í Tansaníu, Restituta Surumbu frá Bashay. Hún hefur verið með frá upphafi og fékk þjálfun í að halda utan um verkefnið á Íslandi. Resty heldur utan um námskeið, túlkar og kennir konunum á tölvur sem við höfum fengið gefnar frá Íslandi.“

Kristrún,Viðar, Auður H. og Restituta undirbúa kennslu.
Kristrún,Viðar, Auður H. og Restituta undirbúa kennslu.


Fyrsta námskeiðið var í apríl 2015 og þar mættu 50 konur í tvær vikur. „Námskeiðið héldum við svo aftur í febrúar 2016 og þá mættu um 30 konur. Í kjölfarið hleyptum við af stað söfnun á Karolina fund til þess að fjármagna framhaldið.“ Í ár var þetta gert með öðrum hætti en áður að sögn Magnúsar, þar sem boðið var upp á framhaldsnámskeið fyrir þær konur sem þurftu á frekari aðstoð að halda.

„Vandamálið hjá þeim er fyrst og fremst fjármögnunin á þeim verkefnum sem þær eru með, en líkur eru á því að þau mál séu að leysast þar sem íslenskir aðilar hafa lagt fjármuni í sjóð sem konurnar geta leitað í. Þær munu sjálfar mynda stjórn og úthluta peningum úr sjóðnum.“

Magnús segir að konur í Tansaníu skorti oft sjálfstraust og þær eigi stundum erfitt með að standa á fætur og tala fyrir framan annað fólk.

,,Við veitum þeim æfingu í að tjá sig auk þess sem þær fá þjálfun í bókhaldi, markaðsgreiningu og hvernig eigi að koma vöru á framfæri og að ná til viðskiptavina.“ Magnús fór til Tansaníu snemma á þessu ári með framhaldsnámskeiðið ásamt Auði H. Ingólfsdóttur, lektor á Bifröst, og Kristrúnu Pétursdóttur sjálfboðaliða.

Kona rekur bílaverkstæði

Magnús Árni Skjöld Magnússon, dósent við Bifröst.
Magnús Árni Skjöld Magnússon, dósent við Bifröst.


„Það er gaman að segja frá þeim árangri sem náðst hefur. Einn hópur kvenna hefur til dæmis sett upp svokallað mpesa, sem er eins konar hraðbanki í farsíma. Með því að sýna skilaboð í símanum geta viðskiptavinir fengið afhenta peninga á staðnum. Konurnar hafa líka opnað verslanir í heimahúsum, aðallega með landbúnaðarafurðir fyrir heimamenn. Þær hafa stofnað hárgreiðslu- og snyrtistofur auk þess sem ein kona gerir við bíla og rekur bílaverkstæði í bílskúrnum heima hjá sér.“ Magnús bendir á að konur í Tansaníu vinni mikið. Þær vakni fyrstar á heimilinu og gefi dýrunum og sinni landinu og þegar því sé lokið veki þær börnin og gefi þeim að borða.

„Þegar karlinn vaknar hafa þær þegar unnið í tvær til þrjár klukkustundir. Þær reka svo nýju fyrirtækin sín eftir hádegi. Fólk þarf að vinna mikið til að láta enda ná saman í Tansaníu. Hagkerfið er erfitt en svæðið er dásamlegt. Veðrið er yndislegt og gróðurfarið og náttúran eru engu lík,“ segir Magnús og bætir við að þó séu hindranir í þessari paradís.

Frumkvöðlasetur í bígerð

„Þorpið þar sem við vorum, Bashay, er ekki eins og hefðbundið þorp með torgi og kirkju og skóla í miðjunni. Húsin eru úti um allt á risastóru landsvæði. Það er langt að sækja vatn og vistir og langt fyrir börnin að fara í skóla. Við fáum aðstöðu í grunnskólanum í Bashay og erum þar nánast undir beru lofti. Það kemur þó ekki að sök í 25 gráðu hita.“ Áframhald verkefnisins er óljóst að sögn Magnúsar, en búið er að sækja um styrk til Evrópusambandsins um samstarfsverkefni Háskólans á Bifröst, þriggja háskóla í Tansaníu og tveggja norrænna háskóla, í Finnlandi og í Noregi.

„Hugmyndin er að setja á stofn frumkvöðlasetur til þess að efla frumkvöðlamenntun í Tansaníu. Við viljum taka þetta upp á næsta stig í samvinnu við tansaníska háskóla.

Jafnréttisfræðsla nauðsyn

Það eru líka hugmyndir um að koma á fót jafnréttisfræðslu fyrir karlmenn í Tansaníu. Konurnar hafa kvartað undan því að karlmenn sýni konum ekki nægan skilning og þeir þurfi að uppfæra sig í jafnréttishugsuninni. Það kemur í ljós í júní eða júlí hvort við fáum styrkinn frá Evrópusambandinu.“ Magnús segir að áfram verði haldið að sækja um ef styrkur fæst ekki í sumar og að verkefnið Women Power Africa verði áfram í þróun.

En hvernig fékk Magnús áhuga á þróunarmálum? „Ég settist í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) árið 1993 ungur að árum. Í gegnum það kynntist ég íslenskri þróunarsamvinnu og heimsótti verkefni ÞSSÍ í Namibíu, Malaví og Mósambík árið 1996. Í framhaldinu af því fór ég í nám alþjóða- og þróunarhagfræði í Bandaríkjunum. Þróunarmál, Afríka og jafnréttismál hafa löngum verið mér hugleikin. Ég átti sæti í landsnefnd UN Women á Íslandi um tíma og gat því skoðað þróunaraðstoð með kynjagleraugum í gegnum það.“

Aðstoð til kvenna skilar meiru

„Það hefur verið sýnt fram á það með rannsóknum að þróunaraðstoð í karllæg verkefni skilar sér ekki í sama mæli til barna og fjölskyldna eins og þegar um þróunarverkefni sem tengjast konum er að ræða. Þróunaraðstoð við konur skilar sér betur til barnanna og skilar þjóðfélaginu sterkari innviðum. Það er því mjög mikilvægt allra vegna að halda áfram með þróunaraðstoð við konur sérstaklega.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert