Komugjald gæti skilað milljörðum

Benedikt Jóhannesson.
Benedikt Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefði verið innheimt 1.500 króna komugjald af flugfarþegum til landsins á árunum 2015-2016 og yrði slíkt hið sama gert á þessu ári miðað við áætlaðan fjölda flugfarþega til landsins samkvæmt spám Isavia hefði það þýtt samanlagt rúmlega 10,2 milljarða króna.

Þetta kemur fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við skriflegri fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar. Þar af 4,2 milljarðar króna á þessu ári. Íslendingar hefðu greitt af heildartölunni um fjórðung hennar eða rúmlega 2,3 milljarða króna. Oddný spurði einnig að því hvort innheimta þyrfti slíkt komugjald einnig í innanlandsfluginu ef til þess kæmi að slíku gjaldi yrði komið á.

Kemur fram í svari ráðherrans að það færi nokkuð eftir útfærslu gjaldsins til að mynda hvort um þjónustugjald væri að ræða eða ekki. Hins vegar væri ljóst að möguleikar löggjafans á að leggja mismunandi komugjald á farþega í millilandaflugi og innanlandsflugi sættu verulegum takmörkunum vegna ákvæða EES-samingsins og Chicago-sáttmálans (alþjóðaflugsáttmálans) ef þeir gætu á annað borð talist vera fyrir hendi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert