„Fólk er orðið úrvinda af þreytu“

AFP

„Við komumst úr þessari blessaðri flugvél í morgun eftir að hafa verið í henni í um ellefu klukkustundir,“ segir Ellen Calmon sem var á heimleið til Íslands með flugvél spænska lággjaldaflugfélagsins Vueling í gærkvöldi þegar ákveðið var að lenda í Glasgow í Skotlandi vegna slæmra veðurskilyrða á Keflavíkurflugvelli að sögn félagsins.

Farþegar þurftu að bíða í um þrjár klukkustundir í flugvélinni í Glasgow áður en snúið var aftur til Barcelona á Spáni þaðan sem vélin kom upphaflega. Ellen segir aðspurð að upplýsingagjöf hafi verið léleg og lítið hafi verið gert fyrir farþega. Þeim hafi til að mynda ekki verið veittar neinar veitingar nema þeir greiddu fyrir þær. Fólki var boðið að fara frá borði í Glasgow og greiða fyrir hótel og flugferð til Íslands á eigin kostnað og gerðu sumir það. Þeir sem það hafi gert hafi einfaldlega sagt að þeir treystu einfaldlega ekki flugfélaginu lengur.

Frétt mbl.is: „Við sitjum bara hérna í vélinni“

„Þegar við komum síðan til Barcelona var okkur bara sagt að yfirgefa flugvélina, við boðin velkomin til Barcelona og upplýst um hitastigið í borginni. Síðan var sagt að flugfélaginu þætti leiðinlegt að hafa valdið farþegum óþægindum en það voru engar upplýsingar veittar um það hvað tæki síðan við,“ segir Ellen. Farþegarnir hafi þá loks yfirgefið flugvélina.

„Við fórum og sóttum farangurinn okkar og var þá sagt að við þyrftum að fara upp í brottfararsalinn. Við fórum þangað og þar fengum við að bíða í tæpar tvær klukkustundir í biðröð. Okkur var síðan boðið að fara á hótel sem hefði tekið hálftíma að komast á alla vega,“ segir hún. Hins vegar hefði það þýtt kannski rúman klukkutíma á hótelinu.

Ellen segir flesta farþega því hafa valið að vera áfram á flugvellinum og þiggja matarmiða enda hefði varla tekið því að fara á hótel. Farþegar þyrftu að innrita sig líka, þar sem gert er ráð fyrir að flogið yrði til Íslands klukkan 11:15 að íslenskum tíma, sem tæki tíma. Fólk hefði fengið það á tilfinninguna að markmiðið hefði verið að letja fólk til að taka því boði.

„Fólk er náttúrulega orðið úrvinda af þreytu, búið að ferðast í alla nótt. Fólki var einnig boðið að fá endurgreiðslu en til þess hefði það þurft að fara í aðra biðröð þannig að ég get ekki ímyndað mér að nokkur hafi nennt því eftir allt hitt. Við erum bara að bíða á flugvellinum núna,“ segir Ellen. Hins vegar viti þau ekkert hvort það eigi eftir að standast.

„Við vonum það auðvitað en það verður bara að koma í ljós. Þegar við vorum í Glasgow var okkur ítrekað sagt að við værum að leggja af stað til Barcelona aftur en svo frestaðist það,“ segir Ellen enn fremur. Aðspurð segir hún að fólk muni klárlega reyna að sækja sér bætur vegna þessa. Þarna væri vinnutap og veruleg óþægindi fyrir farþega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert