Ganga með tóma barnavagna

„Það er erfitt að lýsa þessum tilfinningum, að geta ekki eignast barn. Þetta er djúp innri þrá,“ segir Ásta Sól Kristjánsdóttir, formaður Tilveru, samtaka um ófrjósemi. Á morgun kl. 18 stendur Tilvera fyrir gjörningi til að vekja athygli á málefninu þar sem fólk gengur með tóma barnavagna í kringum Reykjavíkurtjörn. Á táknrænan hátt er verið að taka sársaukann út sem fólk glímir við innra með sjálfu sér.  

„Hugmyndin kom út frá því að fólki sem þráir að eignast barn finnst erfitt að sjá annað fólk með barnavagn. Þú sérð kannski einn barnavagn en þér finnst þeir vera tíu. Það eru þessir hversdaglegu hlutir sem við sem þráum að eignast börn en getum ekki gert eins og að fara út með barnið í vagni að ganga,“ segir Ásta.

Hún bindur vonir við að þátttakan verði góð í göngunni en hún viti til þess að sumum finnst þetta of sársaukafullt til að geta tekið þátt. Allir eru velkomnir að taka þátt og sýna samstöðu í verki.

Ásta bendir á að því fylgir mikið andlegt álag að geta ekki eignast barn. Mikill þrýstingur er frá samfélaginu og álagið á sambandið eykst. Margir sem glíma við þetta þora ekki að tjá sig um stöðu sína.  

Berghildur Erla Bernharðsdóttir, eigandi framleiðslufyrirtækisins Bergsól ehf., sem framleiðir myndbönd …
Berghildur Erla Bernharðsdóttir, eigandi framleiðslufyrirtækisins Bergsól ehf., sem framleiðir myndbönd sem tengjast vitundarvakningu Tilveru. Ásta Sól Kristjánsdóttir, formaður Tilveru.

Einn af sex

Í þessari viku stendur Tilvera fyrir vitundarvakningu um málefnið sem nefnist 1 af 6 en áætlað er að einn af hverjum sex glími við sjúkdóminn hverju sinni. Talið er að 1/3 skýringarinnar sé að finna hjá körlum, 1/3 hjá konum og 1/3 er óútskýrð ófrjósemi. Sjónvarpsauglýsingar Tilveru um málefnið hafa vakið mikla athygli og þær verða sýndar á Rúv út vikuna.

Markmið vitundarvakningarinnar er að vekja athygli á ófrjósemi og því sem fólk gengur í gegnum þegar það þarf að nýta sér aðstoð tækninnar til að eignast barn og nauðsyn þess að allir hafi jafnan aðgang að meðferðum og þurfi ekki frá að hverfa vegna kostnaðar.

Allt í einu lúxus að eiga barn

Helsta baráttumál Tilveru er að fyrsta frjósemismeðferð fyrir þá sem vilja eignast börn verði styrkt en slíkar aðgerðir eru mjög kostnaðarsamar. Samkvæmt núgildandi lögum nær greiðsluþátttaka sjúkratrygginga aðeins til annarrar til fjórðu meðferðar en ekki þeirrar fyrstu.

„Allt í einu er það orðið lúxus að eiga barn. Þetta er orðið svo dýrt og ekki gott þegar fjárhagsáhyggjur koma ofan á glímuna við að eignast barn. Við viljum þrýsta á að þessu verði breytt aftur,“ segir Ásta.

Í tengslum við vitundarvakninguna hefur kvikmyndafyrirtækið Bergsól ehf. framleitt sex myndbönd sem nefnast 1 af 6 en þar en þar segir fólk frá glímunni við sjúkdóminn á afar áhrifaríkan hátt eins og sjá má hér að ofan. 

Myndböndin verða sýnd á RÚV alla þessa viku eða til föstudagsins 19. maí. Þá verður Kastljós með umfjöllun um málefnið í kvöld, þriðjudaginn 16. maí.

Fólk sem tekur þátt í átaki Tilveru.
Fólk sem tekur þátt í átaki Tilveru.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert