Leitar réttar síns eftir óvissuferð

AFP

„Ég er ótrúlega hamingjusöm að vera komin til landsins,“ segir Ellen Calmon í samtali við mbl.is. Hún lenti nú síðdegis á Keflavíkurflugvelli eftir tæplega sólarhrings heimferð frá Barcelona á Spáni. 

Ellen var farþegi í flug­vél spænska lággjalda­flug­fé­lags­ins Vu­el­ing sem var á leið til Íslands í gær frá Barcelona á Spáni þegar ákveðið var að lenda í Glasgow í Skotlandi og snúa síðan aft­ur til Barcelona. Gef­in var sú skýr­ing að veðuskil­yrði hefðu verið slæm á Kefla­vík­ur­flug­velli.

Þegar farþeg­arn­ir komu loks­ins til Barcelona í morg­un höfðu þeir verið í flug­vél­inni í um ell­efu klukku­tíma. Þá þurftu þeir að sækja far­ang­ur sinn, fara upp í brott­far­ar­sal­inn og bíða þar í biðröð í tvær klukku­stund­ir.

Hvað gerist nú í þessari óvissuferð?

Áður en vélin lagði af stað frá Barcelona í dag höfðu einhverjir farþegar ákveðið að hætta við á síðustu stundu. Þá þurfti að taka farangur þeirra úr vélinni. „Við þurftum að bíða eftir þetta í tvo tíma í vélinni á vellinum áður en við fórum í loftið,“ segir Ellen. „Það hvarflaði að manni: „Jæja, hvað gerist nú í þessari óvissuferð?“.

Hún segir farþega hafa rætt sín á milli að þeir ætli að sækja um bætur vegna hins langa ferðalags. „Ég hef fengið ýmsar vísbendingar um að það sé hægt að gera það og það verður skoðað.“

Skildi ekki atburði gærkvöldsins

Ellen var ánægð með flugstjórann sem flaug vélinni til Íslands í dag. „Hann var auðmjúkur og baðst innilegrar afsökunar, aftur og aftur. Hann hélt okkur vel upplýstum þegar þurfti að taka töskurnar úr vélinni þegar farþegarnir hættu við,“ segir Ellen og bætir við að hann hafi ekki verið með það á hreinu hvers vegna ákveðið hafi verið að lenda ekki í Keflavík í gærkvöldi.

„Maður upplifði að hann væri alveg eins að gefa í skyn að hann skildi ekki af hverju kollegi hans hefði ekki flogið.“

Ellen segir að farþegar hafi ekkert heyrt frá flugfélaginu og muni leita réttar síns. „Nú förum við að leita bóta. Fyrst ætla ég í sturtu og að sofa.

Ellen Calmon.
Ellen Calmon. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert