Telur að eitrað hafi verið fyrir sér

AFP

„Ég er sannfærður um að sá sem eitraði fyrir mér gekk í burtu ánægður með það sem hann gerði. Hafi hann sagt einhverjum frá því er ég viss um að honum hefur verið fagnað sem hetju. Ég geri mér grein fyrir því að margir sem munu lesa þetta verða hæstánægðir með að ég hafi orðið alvarlega veikur. Það eitt og sér er til marks um það hversu úrkynjaður og illur vinstrivængurinn er orðinn.“

Þetta skrifar bandaríski fyrirlesarinn Robert Spencer á vefsíðuna Frontpage Mag en hann var staddur hér á landi nýverið þar sem hann flutti erindi á fundi um íslamisma. Fullyrðir hann að eitrað hafi verið fyrir sér á veitingahúsi í Reykjavík. Hann hafi í kjölfarið verið fluttur á sjúkrahús þar sem það hafi verið staðfest.

Frétt mbl.is: Um 500 manns mættu á fund um íslam

Spencer segist hafa farið á veitingahúsið ásamt fleirum eftir fundinn og þar hafi tveir ungir menn heilsað upp á hann. Báðir hafi þeir tekið í höndina á honum, annar sagst vera aðdáandi og hinn hafi sagt við hann: „Fuck you.“ Hann telur að sá fyrri hafi líklega laumað einhverju lyfi í glas hans enda hafi hann komið mun nær honum.

Spencer segir að korteri síðar, þegar hann hafi verið kominn upp á hótelið sitt, hafi hann fundið fyrir doða í andliti, höndum og fótum, hann hafi skolfið og kastað upp. Þá hafi hann fengið mjög öran hjartslátt. Hann hafi varið nóttinni á sjúkrahúsi í kjölfarið. Þar hafi verið staðfest að lyf hafi fundist í blóði hans. Hann sé sjálfur ekki á neinum lyfjum.

Robert Spencer.
Robert Spencer. Wikipedia

Spencer segist hafa verið veikur í nokkra daga á eftir. Hann hafi farið á lögreglustöð og tilkynnt málið. Strax hafi verið farið í það að hafa uppi á þeim sem mögulega bæru ábyrgð. Meðal annars með því að skoða upptökur úr öryggismyndavélum á veitingastaðnum.

Sjálfur hafi hann með lítilli fyrirhöfn fundið nafn, símanúmer og Facebook-síðu þess sem lægi aðallega undir grun. Spencer segist þó ekki ætla að hringja í manninn. Lögreglan myndi væntanlega sjá um það. Hins vegar hefði ekkert á Facebook-síðu hans bent til þess að um raunverulegan aðdáanda væri að ræða heldur þvert á móti.

Spencer fer síðan hörðum orðum um umfjöllun fjölmiðla og annarra um heimsókn hans til landsins. Fjölmiðlar hafi verið uppfullir af fréttum um að vondur maður væri á leiðinni til landsins og rætt við þá nokkra tugi einstaklinga sem mótmælt hafi komu hans. Hins vegar hafi ekki verið leitað eftir viðbrögðum hans sjálfs.

Ein sjónvarpsstöð hafi tekið viðtal við hann í tengslum við fundinn en fréttamaðurinn hafi verið upptekinn af meintri ábyrgð hans á morðum norska fjöldamorðingjans Anders Breivik en Breivik hefur vísað í skrif Spencers. Spencer segist ekki frekar geta borið ábyrgð á gerðum Breiviks en Bítlarnir á gerðum bandaríska fjöldamorðingjans Charles Manson.

Hins vegar væri ljóst af þessu að íslenski fjölmiðlar og stjórnmálamenn vildu ekki að almenningur ræddi íslamsvæðingu og íslamisma. Þeir sem berðust gegn því teldu sig án efa vera að gera göfuga hluti en hefðu með framgöngu sinni gert fólk eins og hann að skotmörkum. Fyrir vikið kæmi það honum ekki á óvart að reynt hefði verið að eitra fyrir hann.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segist aðspurður í samtali við mbl.is geta staðfest að slíkt mál hafi komið inn á borð lögreglunnar. Rannsókn á málinu sé á frumstigi og verið að afla gagna um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert