Tap af veðmálum ekki frádráttarbært

Ekki er hægt að stunda veðmál á netinu í nafni …
Ekki er hægt að stunda veðmál á netinu í nafni einkahlutafélags og fá tapið dregið frá skatti eins og um verðbréfaviðskipti sé að ræða. mbl.is/Brynjar Gunnarsson

Einkahlutafélag, sem gjaldfærði sem kostnað 250 milljóna króna tap af veðmálum á vefsíðunni Betfair, þarf að sæta endurákvörðun opinberra gjalda, launakostnaðar og tryggingargjalds, um sömu upphæð.

Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar eftir að félagið kærði samhljóða úrskurð ríkisskattstjóra.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur meðal annars fram, að yfirskattanefnd telur eins og ríkisskattstjóri að um sé að ræða persónuleg útgjöld eiganda einkahlutafélagsins sem tengist ekki atvinnurekstri þess.

Kærandi hafði árin 2010 til 2012 tapað rúmum 250 milljónum króna vegna þátttöku í getraunastarfsemi fyrrnefndrar vefsíðu. Ríkisskattstjóri ákvað að endurákvarða opinber gjöld hans. Hækkaði hann gjaldfærðan launakostnað svo og stofn til tryggingagjalds um sömu upphæð og dregin hafði verið frá á skattframtali félagsins.

Ekki sama og verðbréfaviðskipti

Í úrskurði yfirskattanefndar er saga málsins rakin. Þar kemur fram að eigandi og fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins stofnaði aðgang að vefsíðunni Betfair í sínu nafni. Það taldi ríkisskattstjóri ekki jafngilda því að opna viðskiptamannareikning hjá verðbréfamiðlara sem annaðist fjárfestingar fyrir þriðja aðila í eigin nafni, eins og haldið var fram af hálfu kæranda.

Var bent á að um verðbréfaviðskipti giltu sérstök lög andstætt því sem við á um þátttöku í getraunastarfsemi eða veðmálum. Ríkisskattstjóri hafnaði því alfarið að félög gætu haft veðmál sem hluta af starfsemi sinni þótt rekstur tengdrar starfsemi gæti fallið þar undir. Benti hann á að í almennum hegningarlögum væri kveðið á um að sá sem gerði sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu skyldi sæta refsingu. Í lögunum kæmi einnig fram að öflun tekna með fjárhættuspili félli undir það að afla sér framfærslu með ólöglegu móti.

Veðjað á gjaldmiðla

Fram kemur að kærandi hefur frá stofnun einkahlutafélagsins stundað umfangsmikil viðskipti sem fólust í spákaupmennsku með samninga tengda gjaldmiðlum. Taldi kærandi að í eðli sínu væru slík viðskipti ekki neitt annað en veðmál um þróun og gengi ákveðins andlags út frá ákveðnum forsendum. Þátttaka hans í erlendri getraunastarfsemi með hagnaðarvon í huga hafi byrjað í kjölfar falls fjármálakerfisins haustið 2008, þegar fyrri viðskipti félagsins lokuðust, m.a. vegna gjaldeyrishafta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert