Telja Íslandsferðum muni fækka 2018

Seljalandsfoss. Schreiber gerir ráð fyrir að þeim muni fækka sem …
Seljalandsfoss. Schreiber gerir ráð fyrir að þeim muni fækka sem kaupa ferð til Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar Studiosus, sem bjóða upp á Íslandsferðir, búast við að verðið muni fæla fólk frá því að bóka ferð til Íslands á næsta ári. Frá þessu er greint á ferðavefnum Túristi.is og segir þar að þetta sé nú þegar orðin raunin hjá bresku ferðaskrifstofunni Discover the World.

„Ferðaskipuleggjendur eru víða að leggja lokahönd á sölubæklinga fyrir næsta ár og einn af þeim er Manfred Schreiber hjá ferðaskrifstofunni Studiosus í Þýskalandi,“ segir í grein Túrista. Ísland sé einn þeirra 120 áfangastaða sem þessi stóra ferðaskrifstofa bjóði upp á hópferðir til. Á því verður engin breyting þrátt fyrir mikla styrkingu krónu og boðaða hækkun virðisaukaskatts.

„Við munum ekki taka Ísland út. Við erum hins vegar langt komin með skipulagningu ferða næsta árs og munum örugglega skera töluvert niður á Íslandi því við reiknum ekki með að margir muni kaupa ferðir þangað,“ er haft eftir Schreiber. 

Studiosus hefur boðið ferðir til Íslands frá því á áttunda áratugnum og segir Schreiber að árlega komi hingað til lands um þrjú þúsund manns á þeirra vegum.

Schreiber var harðorður í garð íslenskra stjórnvalda í viðtali við Túrista í apríl og sagði hann þá engu líkara en að ráðamenn vildu ganga af ferðaþjónustunni dauðri með auknum álögum. „Vandamálið er að sjóndeildarhringur sumra stjórnmálamanna virðist ekki ná lengra en til Vestmannaeyja. Þeir horfa ekki til annarra markaða og skilja ekki að svona aðgerðir draga úr eftirspurn. En svo lengi sem Kínverjar og Bandaríkjamenn halda áfram að fjölmenna til landsins finna stjórnvöld ekki fyrir afleiðingunum. Ég er þó viss um að meira að segja þessar þjóðir hafi sín takmörk,“ sagði Schreiber þá og kallaði eftir stefnu stjórnvalda á stjórnlausum markaði ferðaþjónustunnar.

30% verðhækkun frá því í fyrra

Breska ferðaskrifstofan Discover the World hefur líka áratuga reynslu af skipulagningu Íslandsferða og er í greininni haft eftir Clive Stacey, stofnanda og framkvæmdastjóra, að verðhækkanirnar á Íslandi kalli á breytingar. „Við munum einbeita okkur að sérsniðnum ferðum í stað hópferða og það mun væntanlega leiða til þess að dvalartími viðskiptavina okkar styttist.“ Fyrirtækið finni líka fyrir því að erfiðara sé að selja ferðirnar nú í sumar. „Við urðum til að mynda nýverið að aflýsa 8 daga gönguferð um Austurland þar sem eftirspurnin var ekki næg til að standa undir kostnaði. Þetta kemur reyndar ekki á óvart því ferðin kostaði þrjú þúsund pund (395 þúsund kr.) sem er um 30 prósent hærra verð en í fyrra. Fyrir sama verð getum við boðið upp á tveggja vikna hreyfiferð um Nýja-Sjáland.“

Stór hluti viðskiptavina Discover the World eru breskir skólahópar og segir Stacey enga aukningu í sölu á slíkum ferðum til Íslands, öfugt við það sem hefur verið síðastliðinn áratug. „Skólahóparnir fara því í auknum mæli í ferðir okkar til Ítalíu og Noregs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert