2 ára í lífshættu vegna læknamistaka

Farið var með stúlkuna á bráðamóttöku þegar mistökin uppgötvuðust, þar …
Farið var með stúlkuna á bráðamóttöku þegar mistökin uppgötvuðust, þar sem hún fékk viðeigandi meðferð. mbl.is/Hjörtur

Tveggja ára stúlka veiktist lífshættulega í síðustu viku vegna mistaka læknis og lyfjafræðings. Talið er að rétt viðbrögð móður stelpunnar og ömmu hafi orðið henni til lífs. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í morgun.

Þar segir að stelpunni, sem var með hlaupabólu, hafi verið ávísað banvænni skammtastærð af ofnæmislyfi þegar læknir fór línuvillt í rafræna ávísanakerfinu. Ávísaði læknirinn lyfinu í töfluformi í stað mixtúru og fyrir vikið varð lyfjaskammturinn þrettánfalt sterkari en hann átti að vera.

Lyfjafræðingur í apótekinu þar sem lyfið var leyst út tók ekki eftir villunni og afgreiddi lyfið athugasemdalaust. Líðan stúlkunnar versnaði síðan verulega eftir að móðir hennar hafði gefið henni fyrstu þrjá skammtana af lyfinu í samræmi við fyrirmæli á umbúðum.

Móðir hennar og amma lásu þá fylgiseðilinn með lyfinu og uppgötvuðu að mistök höfðu verið gerð. Þær óku þá samstundis með stelpuna á bráðamóttöku Landspítalans, þar sem hún fékk viðeigandi meðferð. Er hún sögð vera komin heim til sín og á góðum batavegi eftir fjögurra daga sjúkrahúsvist, þó að hún þurfi enn að vera undir eftirliti.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert